145. löggjafarþing — 36. fundur,  18. nóv. 2015.

alþjóðleg þróunarsamvinna Íslands o.fl.

91. mál
[17:22]
Horfa

Frsm. minni hluta utanrmn. (Össur Skarphéðinsson) (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Hæstv. ráðherra gerir engum gott með því að koma með þetta mál. Hann er ekki að hjálpa nokkrum málstað og allra síst sjálfum sér, alls ekki málstað síns flokks og enn síður ríkisstjórnarinnar með því að reyna að keyra þetta mál hér í gegn annan veturinn í röð þó að vitað sé að fyrir málinu sé enginn stuðningur á Alþingi Íslendinga. Það hefur enginn maður úr stjórnarliðinu treyst sér til þess að mæla með málinu í fullri ræðu. Eins og hér hefur margoft komið fram fann eini maðurinn sem hefur tekið til máls hér og haldið ræðu úr stjórnarliðinu málinu ýmislegt til foráttu, svo það liggi algjörlega ljóst fyrir.

Satt að segja er þetta mál, eins og það er rekið, farið að lykta af hefndarleiðangri gegn starfsmönnum Þróunarsamvinnustofnunar sem mega sitja undir ámæli, dylgjum og ýjunum af hálfu hæstv. ráðherra án þess hann standi fyrir máli sínu. Hvað hafa þeir til saka unnið? Ekkert annað en það að þegar þeir hafa komið á fund utanríkismálanefndar hafa þeir svarað spurningum. Þeir leyfðu sér þá ósvinnu að segja frá því aðspurðir að þegar hæstv. ráðherra kynnti þeim ákvörðun sína og þeir spurðu um röksemdir fyrir því þá sagði hann: Það þarf engar röksemdir. Það segir allt sem segja þarf um málið.

Hvað gerðist svo þegar hæstv. ráðherra fór til Afríku til þess að heimsækja eitt af samvinnulöndunum okkar? Samkvæmt Ríkisútvarpinu gerðist það í fyrsta skipti að ekki var óskað sérstaklega eftir því að neinn starfsmanna Þróunarsamvinnustofnunar fylgdi ráðherranum. Af hverju öðru lyktar þetta en hefndarleiðangri gagnvart starfsmönnunum? (Gripið fram í.) Ég spyr. Mér er heitt í hamsi vegna þess að ég tel að hér sé verið að vinna fólskuverk.

Þessi stofnun er fyrirmyndarstofnun að mati Ríkisendurskoðunar. Það er vegna nýmæla hennar, ferskleika og nálgunar sem hún dró til viðbótar við framlag (Forseti hringir.) ríkisins 1 þús. milljónir af erlendu fé sem var lagt við verkefni stofnunarinnar. (Forseti hringir.) Maður veltir því fyrir sér hvernig í ósköpunum standi á því að menn ætla að leggja niður stofnun (Forseti hringir.) sem virkar mjög vel.