145. löggjafarþing — 36. fundur,  18. nóv. 2015.

alþjóðleg þróunarsamvinna Íslands o.fl.

91. mál
[17:27]
Horfa

Ögmundur Jónasson (Vg):

Hæstv. forseti. Þegar við fjöllum um þingmál á Alþingi finnum við til skyldurækni. Okkur finnst okkur bera skylda til þess að taka þátt í umræðu um mikilvæg mál og þetta mál er vissulega mikilvægt. Við erum að fjalla um umfangsmikla stofnun sem veltir miklum fjármunum og það skiptir máli hvernig búið er að henni í kerfinu.

Eftir því sem líður á umræðuna um Þróunarsamvinnustofnun finnst mér hún alltaf breyta um svip. Í stað skyldurækninnar sem skín út úr ræðuhöldunum er kominn ákafi og funi. Mönnum er ekki sama hvað er að gerast. Þegar menn rifja upp rökin, þegar menn hlýða á mál þingmanna sem hafa kynnt sér málið hvað gerst finna þeir innra með sér þörf til að reyna að hafa áhrif á gang mála.

Þetta er að gerast eina ferðina aftur hér. Umræðan er að byrja að breyta um svip, það er að færast í hana miklu meiri eindrægni og ákafi, vil ég leyfa mér að kalla það, af hálfu þeirra sem tala gegn þessu máli.

Málamiðlanir eru oft nauðsynlegar í stjórnmálum og ég held að enginn deili um það. Flest höfum við tekið þátt í málamiðlun af einhverju tagi og þykir það ekki slæmt, ekki ljóður á okkar ráði. Öðru máli gegnir um hrossakaup, það er allt annar handleggur. Ég vil leyfa mér að halda því fram að það frumvarp sem við erum að ræða hér sé hluti af hrossakaupum milli stjórnarflokkanna, milli Framsóknarflokksins annars vegar og Sjálfstæðisflokksins hins vegar. Ég held nefnilega að fyrir þessu þingmáli sé ekki meiri hluti hér í salnum. Ef menn ættu að svara því heiðarlega hvað þeim finnist um þetta frumvarp tel ég að meiri hluti þingmanna væri því andvígur, mundi svara neitandi. Hættan er að svo verði ekki í atkvæðagreiðslu vegna þess að þetta er hluti af hrossakaupum.

Ég er sannfærður um að Sjálfstæðisflokkurinn og flestir þingmenn hans séu andvígir þessu frumvarpi, mjög andvígir því, en að þeim verði þröngvað til að láta málið yfir sig ganga og þess vegna hafi það verið rifið út úr nefnd til að flýta fyrir því til að ná öðru frumvarpi í gegn sem er Sjálfstæðisflokknum hugleikið. Þar er ég að tala um frumvarp um opinber fjármál sem Framsóknarflokkurinn er andvígur. Ef Framsóknarflokkurinn og þingmenn hans ættu að greiða atkvæði um það mundu þeir ýta á nei-takkann. Þetta er mín tilfinning eftir að ræða við menn og hlusta á þingmenn ræða um þessi tvö mál. Ég held að afstaðan sé þessi.

Niðurstaðan gæti því miður orðið sú að bæði frumvörpin yrðu samþykkt með fulltingi þingmanna beggja stjórnarflokka vegna þess að þeir eru skuldbundnir til að taka þátt í hrossakaupum. Það er það ljóta við þetta mál. Ef við værum að fjalla hér um eitthvert þjóðþrifamál og að þessi breyting á lögum skipti engu stóru máli mundum við láta kyrrt liggja. Við erum að tala um stofnun sem kallar á mjög lítið rekstrarfé. Gera menn sér grein fyrir því að rekstur á Þróunarsamvinnustofnun er rétt rúmlega 100 milljónir, 137 milljónir? Veltan og umfangið nemur hins vegar milljörðum og þessari veltu vill hæstv. utanríkisráðherrann ná inn í ráðuneytið. (ÖS: Rétt.) Það er það sem málið snýst um.

Þá spyr ég um eitt: Hvaða hagsmunum þjónar það hugsanlega? Verður stjórnsýslan markvissari? Verður hún gagnsærri? Þá skulum við huga að því að fjölmargar stofnanir og mörg svið sem skarast við þetta eru núna innan veggja utanríkisráðuneytisins. Er reksturinn þar sérstaklega gagnsær? Er hann okkur í þessum sal ljós að öllu leyti? Ég held ekki. Rekstur Þróunarsamvinnustofnunar er það á hinn bóginn.

Ég er ekki að gagnrýna aðrar stofnanir eða önnur svið sem skarast við þetta, ég held því einfaldlega fram að það sé verið að taka stofnun sem er markvisst rekin, þar sem bókhaldið og allar ákvarðanir eru eins gagnsæjar og verða má, og flytja hana inn undir væng utanríkisráðuneytisins. Er það skynsamlegt? Nei. Á sama hátt og það væri ekki skynsamlegt að taka Vegagerðina sem heyrir undir innanríkisráðuneytið og færa hana inn á 3. eða 4. hæð í innanríkisráðuneytinu. Það væri galið. Við viljum hafa þessa starfsemi og ég vísa þar í hvort tveggja, þróunarsamvinnusviðið og Vegagerðina eða aðra ámóta starfsemi, við viljum hafa það sem aðgreinanlega einingu sem er síðan rekin á markvissan og gagnsæjan hátt.

Hvað Þróunarsamvinnustofnun Íslands áhrærir hefur hún hlotið einróma lof hér á landi, nánast allir umsagnaraðilar um þessa stofnun ljúka lofsorði á það hve vel hún standi sig og hér hefur komið fram við umræðuna að þegar Ítalir íhuga endurmat á sínu kerfi horfi þeir meðal annars til Íslands til að færa sitt skipulag í það horf sem við búum við hér og höfum gert frá því að lögum var breytt árið 2008 og það fyrirkomulag sem við þekkjum nú leit dagsins ljós. Þessi sögulega umgjörð er rakin prýðilega í nefndaráliti minni hluta utanríkismálanefndar. Ég ætla að leyfa mér að lesa fáeinar línur, með leyfi forseta:

„Fyrirkomulag þróunarsamvinnu Íslands hefur frá setningu laga nr. 121/2008, um alþjóðlega þróunarsamvinnu Íslands, verið með þeim hætti að ÞSSÍ fer með tvíhliða þróunarsamvinnu Íslands við samstarfsríki sem svarar til 40% framlaga Íslands til málaflokksins. Á móti fer utanríkisráðuneytið með um 60% framlaga sem veitt eru til marghliða þróunarsamvinnu og þeirrar tvíhliða þróunarsamvinnu sem fer í gegnum alþjóðastofnanir.“ — Síðan er vísað í skýrslu sem gerð var á vegum ráðuneytisins og er mjög umdeild, sérstaklega af hálfu þeirra sem hafa kynnt sér málin í þaula síðustu vikur og mánuði eftir að þetta frumvarp leit dagsins ljós og hefur endurspeglast í umræðu á þinginu.

Ekki er nóg með það, við höfum fengið að vita að þróunarsamvinnunefnd OECD, sem er skammstöfuð DAC, er að láta framkvæma könnun á heppilegu fyrirkomulagi á þessu sviði. Menn sem andæfa þessu frumvarpi hafa mælst til þess og vilja að minnsta kosti fá því skotið á frest þangað til við fáum niðurstöðu úr þeirri rannsókn. Mér finnst liggja í augum uppi að okkur beri að gera það. Hvað hastar? Hvað í ósköpunum er það sem hastar, annað en að verða við kröfu hæstv. utanríkisráðherra sem virðist hafa fengið þá skrúfu á sálina að þessu máli verði að ná í höfn, að hann verði að ná árangri með þessari lagasetningu á kostnað faglegra sjónarmiða og þess starfs sem rekið er á vegum Þróunarsamvinnustofnunar?

Ég endurtek það sem ég vísaði til í upphafi míns máls, ef Þróunarsamvinnustofnun væri vandræðabarn, stofnun sem hefði ekki staðið sig í stykkinu, ekki skilað árangri í starfi, sem væri ógagnsæ í öllum sínum háttum, gæti ég skilið þetta. Hið gagnstæða er upp á teningnum. Hún hlýtur hvarvetna lof, bæði innan lands og utan. Það er einvörðungu utanríkisráðuneytið með hæstv. utanríkisráðherra í broddi fylkingar sem vill knýja þetta í gegn. Og hvað á að gera? Það á að leggja stofnunina niður. Nei, segja flutningsmenn, það á ekki að leggja stofnunina niður, það er bara verið að breyta um skipulag og færa hana inn undir væng utanríkisráðuneytisins.

Nei, ég mótmæli því vegna þess að veruleikinn er sá að stofnunin yrði lögð niður í núverandi mynd og færð inn í allt annað umhverfi. Það er það sem er að gerast. Við vitum hvað við höfum og við óttumst hvað við kunnum að fá. Þetta er ástæðan fyrir því að við leggjumst hart gegn því að þetta frumvarp nái fram að ganga. Ég ítreka það sem ég sagði áðan og bið menn að hugsa það: Hvernig í ósköpunum stendur á því að það færist alltaf funi í þessar umræður? Er ekki vert að hugleiða það? Það er vegna þess að þegar menn hlusta á rökin og kynna sér málin betur sannfærast þeir um að það sem hér er lagt til er óráð.

Hæstv. forseti. Fyrir þingi liggja nefndarálit um þetta mál og ég verð að segja að mér finnst nefndarálit frá minni hluta utanríkismálanefndar mjög upplýsandi og í senn mjög afgerandi í sinni niðurstöðu. Það varð mér umhugsunarefni þegar upplýst var hér fyrr í dag að þetta mál hefði verið tekið út úr utanríkismálanefnd þingsins án þess að kostur væri gefinn á því að fara yfir umsagnir. Þeir sem tala fyrir þeirri tilhögun segja að það hafi áður komið til umsagnar og umfjöllunar. Ég vil einfaldlega fá að vita hvort það hafi komið fram nýjar ábendingar og ný sjónarmið í þeim umsögnum sem hafa borist þinginu síðan við fjölluðum síðast um málið.

Ég segi fyrir mína parta að eftir því sem ég kynni mér þetta mál betur, því andvígari verð ég því. Það er bara þannig. Það á ekki að láta þetta mál ganga hratt í gegnum þingið. Það má ekki gerast. Ég vil reyndar að það fari alls ekki í gegn, en ég væri tilbúinn að fallast á málamiðlun. Málamiðlunin er sú að við bíðum eftir þeirri rannsókn sem fram fer á vegum OECD áður en við tökum ákvarðanir. Látum hana gerast, ráðumst ekki í breytingar núna, látum næsta ár líða og tökum málið þá aftur til umfjöllunar. Ég er ekki að segja að þar með föllumst við á þær breytingar sem hér eru lagðar til en þá höfum við að minnsta kosti málefnalegan grunn til að byggja á.

Að lokum langar mig að lesa fáeinar línur úr niðurlagi minnihlutaálits frá utanríkismálanefnd þar sem minni hlutinn vísar í rök sem fram hafa verið reidd og þar segir hann „ljóst að frumvarpið sé vanbúið, illa rökstutt og að hluta byggt á misskilningi. Engar málefnalegar forsendur eru færðar fyrir því að leggja ÞSSÍ niður. ÞSSÍ hefur unnið gott starf, nýmæli og ferskleiki í vinnubrögðum stofnunarinnar hafa vakið verðskuldaða athygli annarra þjóða eins og birtist í því að stofnuninni hefur tekist að fá yfir 700 millj. kr. frá erlendum stofnunum inn í íslensk verkefni. Í ljósi framangreinds telur minni hlutinn því rétt að skoða alvarlega hvort umgjörð alþjóðlegrar þróunarsamvinnu Íslands sé betur komið á þann veg að færa verkefni frá utanríkisráðuneytinu til ÞSSÍ þannig að a.m.k. öll tvíhliða þróunaraðstoð sé vistuð hjá stofnuninni nú þegar fyrir liggur að stjórnvöld hyggja á hægfara hækkun framlaga til alþjóðlegrar þróunarsamvinnu — sem minni hlutinn vonar svo sannarlega að staðið verði við. Við þær aðstæður ætti ríkisstjórnin að íhuga að styrkja hlutverk ÞSSÍ fremur en leggja hana niður. Jafnframt liggur fyrir að á næsta ári mun DAC“ — sú stofnun sem ég vísaði til og starfar á vegum OECD og rannsakar og sérhæfir sig í þróunarsamvinnu — „ljúka gerð svokallaðrar jafningjarýni á ÞSSÍ þar sem fyrirkomulag rammans um þróunarsamvinnu Íslands verður m.a. skoðað. Væri raunverulegur vilji til þess að vinna faglega að því að efla alþjóðlega þróunarsamvinnu Íslands væri rökrétt af stjórnvöldum að bíða úttektar DAC í stað þess að leggja í illa ígrundaðar stofnanabreytingar nú þar sem markmiðið virðist eitthvað allt annað en að tryggja að framlög Íslands skili hámarksárangri og komi hinum fátæku í samstarfsríkjum að mestum notum.“

Undir þetta skrifa fulltrúar allra flokka í stjórnarandstöðunni. Ég vek athygli á því sem ég hóf mál mitt á, að ég er sannfærður um að þingmenn Sjálfstæðisflokksins eru þessu máli andvígir en þetta er hluti af hrossakaupum Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks í ríkisstjórn. Sjálfstæðisflokkurinn fær frumvarp um opinber fjármál í gegnum þingið þvert á vilja þingmanna Framsóknarflokksins, það höfum við margoft heyrt. Við höfum áður heyrt þegar það mál hefur borið hér á góma að þingmenn hans eru því andvígir. Ég er mjög sammála þeim um það en í staðinn fyrir að lúffa í því máli fær Framsókn þetta mál í gegn. Þetta eru því dæmigerð hrossakaup. Þannig á ekki að bera sig að og allra síst þegar um er að ræða verðmæta og mikilvæga stofnun, stofnun sem hefur unnið sín störf nánast óaðfinnanlega að mati þeirra sem vel þekkja til. Hún á annað skilið en hrossakaup í millum Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks.