145. löggjafarþing — 36. fundur,  18. nóv. 2015.

alþjóðleg þróunarsamvinna Íslands o.fl.

91. mál
[17:47]
Horfa

Frsm. minni hluta utanrmn. (Össur Skarphéðinsson) (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Hv. þm. Ögmundur Jónasson las orðrétt kjarnyrt niðurlag nefndarálits minni hlutans og ég verð að segja alveg eins og er að ég hefði ekki getað orðað það betur sjálfur.

Hv. þingmaður skar umbúðalaust inn í kjarna þessa máls. Hann gaf málinu þá einkunn sem það á skilið. Hann sagði að þetta væru hrossakaup á Alþingi. Það er algjörlega hárrétt hjá honum. Eins og hér hefur verið rakið af mörgum ræðumönnum í dag er það sláandi að þingmenn stjórnarliðsins treysta sér ekki til þess að styðja þetta mál með ræðuhöldum á Alþingi Íslendinga.

Það liggur fyrir að málið hefur engan stuðning í stjórnarliðinu. Eini ágreiningurinn sem ég geri við hv. þingmann er að hann sagði að hann teldi að þingmenn Sjálfstæðisflokks væru á móti málinu. Á orðum hans mátti skilja að þingmenn Framsóknarflokksins væru það ekki. Ég er þeirrar skoðunar að margir þingmenn Framsóknarflokksins séu líka á móti málinu. Ég trúi því ekki að þingmenn Framsóknarflokksins upp til hópa gangi gegn einni af meginarfleifðum eins af glæstustu leiðtogum Framsóknarflokksins, Ólafs Jóhannessonar, sem hratt þessari stofnun úr vör fyrir áratugum síðan. Ég trúi því ekki fyrr en ég tek á.

Hitt er alveg ljóst að þetta mál er einstakt að því leyti að þetta er eina málið sem hæstv. utanríkisráðherra hefur. Hér sjáum við engin mál um norðurslóðir. Hæstv. ráðherra heyktist meira að segja á því að koma fram vilja sínum gagnvart ESB. Þetta er eina málið sem lagt var fram fyrir utan endalaus aðlögunarmál gagnvart ESB í þingmálaskrá ráðherrans. Það er þess vegna sem hann leggur (Gripið fram í.) þessa ofuráherslu á það.

Af því að hv. þm. Brynjar Níelsson, fyrrverandi formaður Lögmannafélagsins, kallar eitthvað úr þingsal sem ég næ ekki að greina en mér fannst vera mótmæli við því sem ég er að segja þá liggur það algjörlega fyrir að málið er til marks um þau vinnubrögð sem hafa svert Alþingi og fært það niður í áliti almennings og rýrt það trausti. Ég tek undir með hv. þm. Ögmundi Jónassyni (Forseti hringir.) þegar hann fordæmir þau vinnubrögð, sem eru dæmi um það versta sem hægt er að finna að hjá Alþingi Íslendinga og það eru hrossakaup þeirra stjórnarflokka sem nú eru við völd.