145. löggjafarþing — 36. fundur,  18. nóv. 2015.

alþjóðleg þróunarsamvinna Íslands o.fl.

91. mál
[17:51]
Horfa

Frsm. minni hluta utanrmn. (Össur Skarphéðinsson) (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Málið var ekki tekið út í slagsmálum í utanríkismálanefnd. Það var líka rætt í þaula í fyrra, en það voru nýir þingmenn sem höfðu gengið til liðs við nefndina og staðreynd málsins er að það var ekki farið yfir umsagnir málsins. Til dæmis þá umsögn sem hér var vísað til frá Gagnsæi, samtökum gegn spillingu, sem var mjög merkileg og færði mjög sterk rök gegn þessari breytingu, yfir hana var aldrei farið. Yfir ýmsar aðrar umsagnir sem höfðu líka borist í fyrra var aldrei farið, svo það liggi algerlega ljóst fyrir.

Hv. þingmaður telur að það séu ný gögn inn í málið þegar ég held því fram að hv. þingmenn Framsóknarflokksins styðji ekki þetta mál. Ég orðaði það að vísu þannig að ég teldi að margir þingmanna Framsóknarflokksins gerðu það ekki. Ég ræð það af því að þeir hafa ekki treyst sér til að koma hér til þess að styðja málið í ræðu. En hitt er annað að þetta eru vinnufélagar mínir. Ég þekki þetta fólk og þetta eru viti bornar verur. Þeir hafa hlustað á röksemdirnar. Ég hugsa að þeir hafi, eins og margir aðrir, látið ginnast í upphafi af þeim blekkingum sem voru færðar fram með málinu. Það er til að mynda alveg makalaust að lesa greinargerðina sem byggir á dylgjum en byggir líka á rangtúlkunum á skýrslu þróunarsamvinnunefndar OECD. Það er ekki bara mitt álit að þar sé verið að rangtúlka þá merku skýrslu. Ef hv. þingmenn mundu til dæmis lesa álit og umsögn Alþýðusambands Íslands þá reka þeir augun í þetta. Þeir hafa greinilega lagt í það verkefni að leita eftir því hvort röksemdir í greinargerðinni þar sem er verið að vísa í skýrslu þróunarsamvinnunefndar OECD séu réttar og þeir leita í skýrslu DAC-nefndarinnar og þeir segja einfaldlega: Það sem staðhæft er í greinargerðinni er ekki að finna í téðri skýrslu.

Það er því niðurstaða mín að hv. þingmenn (Forseti hringir.) Framsóknar hafi eðlilega þegar ráðherrann flutti málið í þingflokknum fallist á það, en síðan hafa runnið á þá tvær grímur (Forseti hringir.) og það er þess vegna sem þeir (Forseti hringir.) hafa ekki komið hingað til þess að styðja málið.