145. löggjafarþing — 36. fundur,  18. nóv. 2015.

alþjóðleg þróunarsamvinna Íslands o.fl.

91. mál
[18:06]
Horfa

Frsm. minni hluta utanrmn. (Össur Skarphéðinsson) (Sf) (um fundarstjórn):

Herra forseti. Hér var í dag óskað góðfúslega eftir því að hæstv. utanríkisráðherra kæmi til fundarins til að geta skýrt ákveðnar spurningar og afstöðu. Þá var upplýst að hæstv. ráðherra væri fjarri góðu gamni, hann væri að sinna erindrekstri fyrir Framsóknarflokkinn í Skagafirði. Allt er gott um það að segja og sennilega er ekki vanþörf á því að þeim málum sé líka sinnt á þessum síðustu og verstu tímum.

En komið hefur fram í umræðunni að menn hafa bent á að alvarlegar rangfærslur voru í greinargerð með frumvarpinu. Það álit kom fram í umsögn Alþýðusambands Íslands sem fékkst í fyrsta lagi ekki rædd í utanríkismálanefnd, en í öðru lagi er ekki hægt að gera kröfu til að forsjármaður málsins hér, hv. formaður utanríkismálanefndar, geti skýrt þær út. Það getur enginn skýrt nema hæstv. utanríkisráðherra. Því legg ég fram þá ósk að umræðunni verði frestað þangað (Forseti hringir.) til hæstv. utanríkisráðherra sér sér fært að víkja frá málefnum Framsóknarflokksins til að sinna þinglegum skyldum sínum.