145. löggjafarþing — 36. fundur,  18. nóv. 2015.

alþjóðleg þróunarsamvinna Íslands o.fl.

91. mál
[18:07]
Horfa

Ögmundur Jónasson (Vg) (um fundarstjórn):

Hæstv. forseti. Ég kveð mér hljóðs fyrst og fremst til að taka undir með hv. þm. Össuri Skarphéðinssyni. Ég nefndi það líka í máli mínu að því hefur verið haldið fram í þingræðum að alvarlegar dylgjur og beinlínis rangfærslur sé að finna í greinargerð með þessu frumvarpi. Það er ekki til of mikils mælst að ætlast til þess að hæstv. utanríkisráðherra, sem er ábyrgur fyrir þingmálinu, komi hingað til þings og standi fyrir máli sínu.

Þetta eru mjög alvarlegar ásakanir sem ekki einvörðungu hafa verið bornar fram í þingsal heldur er þær að finna í umsögnum aðila á borð við Alþýðusamband Íslands. Þess vegna tek ég undir með hv. þm. Össuri Skarphéðinssyni að eðlilegt er að skjóta umræðunni á frest og bíða þess að hæstv. utanríkisráðherra geti verið hér við umræðuna og staðið fyrir máli sínu.