145. löggjafarþing — 36. fundur,  18. nóv. 2015.

alþjóðleg þróunarsamvinna Íslands o.fl.

91. mál
[18:44]
Horfa

Katrín Júlíusdóttir (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Mér þykir sú kenning ekkert vitlaus vegna þess að við erum búin að heyra tvo þingmenn Sjálfstæðisflokksins ræða um þetta mál. Annar er formaður nefndarinnar, hv. þm. Hanna Birna Kristjánsdóttir, og hún hefur ekki komið hér og slegist fyrir málinu í andsvörum eða svarað spurningum okkar í einu eða neinu.

Síðan erum við með hv. þm. Vilhjálm Bjarnason sem hefur beinlínis sagt í ræðustól að hann skilji ekkert í því af hverju málið er komið á dagskrá og af hverju verið er að þrýsta svona á það og hefur lýst sig heldur andsnúinn því.

Ég get alveg ímyndað mér að það hljóti að vera einhvers konar hrossakaup þarna á bak við. En þá ætla ég að segja: Að berjast svona hart fyrir því að leggja Þróunarsamvinnustofnun niður, stofnun sem hefur notið alþjóðlegrar viðurkenningar, fengið hrós frá mikilvægum aðilum eins og DAC, sem hv. þingmaður nefndi áðan, fyrir það að vera einmitt með góða stýringu á verkefnum með ákveðinni valddreifingu sem gefur þá sendiskrifstofum sveigjanleika til að vinna með heimamönnum o.s.frv., sem er það sem þróunarsamvinna á að ganga út á, ekki með einhverjum stórum ytri verkefnum sem koma eins og pakkalausnir inn í þeirra samfélag. Að leggja svona mikla áherslu á að leggja slíka stofnun niður á móti, það er þá eitthvert stöff, og ég skil baráttuna fyrir opinberu fjármálunum, en þessa baráttu skil ég ekki vegna þess að hún sýnir inn í einhvern hugsunarhátt sem ég næ ekki utan um. Hvernig ætla menn að réttlæta það að þeir keyri mál með þessum hætti gegn þróunarsamvinnu? Það er algjörlega vitað að þegar þróunarsamvinna, svona sérfag er komið inn í ráðuneyti þá mun það hægt og rólega fjara út, það mun fjara undan því.

Það er kannski það sem menn eru að gera. Það er þá stefna (Forseti hringir.) Framsóknarflokksins og Sjálfstæðisflokkurinn ætlar að hjálpa þeim.