145. löggjafarþing — 36. fundur,  18. nóv. 2015.

alþjóðleg þróunarsamvinna Íslands o.fl.

91. mál
[18:56]
Horfa

Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni svarið. Eðli málsins samkvæmt, eins og hún nefndi hér, er mikil andstaða gegn málinu. Ég tek undir það. Ég skil ekki þá þvermóðsku að vilja ekki reyna að leita sátta í ljósi þeirra þverpólitísku málamiðlana sem við höfum náð undanfarna daga. Þær hafa alla vega orðið til þess að enginn gengur sár frá borði, samanber náttúruverndarmálin. Ég tek undir að það sé þess virði að reyna.

Ástæða þess að ég nefndi þessi tvö verkefni í ráðuneytinu er sú að ég hef áhyggjur af því að það fari rúmlega 1,5 milljarðar inn í ráðuneytið, sem við höfum þá miklu minni upplýsingar um hvað verði af.

Ég hugsa líka um þá sem eru á vettvangi og fólkið í framandi umhverfi, sem eru viðtakendur aðstoðar í þessu samhengi. Þingmaðurinn kom inn á viðbragðsflýtinn í ræðu sinni og annað þegar fólk er á staðnum. Maður veltir fyrir sér hvar rödd þessa fólks sé. Hún er ekki hér í umræðunni nema þá kannski hjá okkur í stjórnarandstöðunni. Ég tel að við séum með þessu andófi okkar hér að sýna að við styðjum það að fyrirkomulagið verði með sambærilegum hætti og verið hefur. Það hefur ekki verið sýnt fram á — er ekki þingmaðurinn sammála því? — hver hagræðingin verður fyrir fólk í samstarfslöndunum, sem um er að ræða og þiggur þessa þjónustu. Ég held að fagfólkið eigi að halda utan um þetta með þeim hætti sem gert hefur verið. Við eigum að halda áfram að fá svona mælanlegar niðurstöður því að í þetta fara miklir fjármunir og það er styrkur fyrir ríkið og ríkisstjórn (Forseti hringir.) hvers tíma þegar skilað er jafn ítarlegum upplýsingum um málið og gert hefur verið í tilfelli Þróunarsamvinnustofnunar.