145. löggjafarþing — 36. fundur,  18. nóv. 2015.

alþjóðleg þróunarsamvinna Íslands o.fl.

91. mál
[18:58]
Horfa

Katrín Júlíusdóttir (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil búa í samfélagi þar sem við getum borið höfuðið hátt í þróunarsamvinnu. Ég vil búa í samfélagi þar sem að við tökum ákvarðanir um að fara og styðja við samfélög sem eru með veika innviði og eru ekki með jafn sterka innviði og við höfum náð að byggja upp hér. Þau eru því miður fjölmörg af mjög mörgum ástæðum, út af loftslagi og náttúrulegum ástæðum og líka út af stríði og hörmungum sem yfir þessi samfélög hafa dunið. Það er skylda okkar að mínu mati að gera það. Það á að gera það á faglegum forsendum með fólkinu, með því að hlusta fyrst og fremst á það. Ég er sammála hv. þingmanni og hrædd um að rödd þess gæti verið fyrir borð borin ef að menn ætla að breyta fyrirkomulaginu, sem hefur einmitt verið hrósað, á valddreifingunni sem er hugsuð þannig að sendiskrifstofur séu út frá Þróunarsamvinnustofnun sem geti síðan og hafi ákveðinn sveigjanleika til að breyta um kúrs ef á þarf að halda og vinna með fólkinu á staðnum. Ég held að það sé einmitt þannig þróunarsamvinna sem við eigum að horfa til, vera til stuðnings með ráðgjöf og fjármuni eins og verið hefur. Ég er hrædd um að þetta fari og breytist þannig að það verði ekki jafn áhrifaríkt og nú er.

Margar sögur eru til af misheppnaðri þróunaraðstoð. Menn hafa safnað reynslu áratugum saman. Þeir sem vinna á þessu sviði hafa gríðarlega þekkingu á því sem farið hefur vel og því sem hefur misfarist. Þess vegna skiptir svo miklu máli að við höfum skýran faglegan strúktúr utan um það sem við erum að gera (Forseti hringir.) þegar kemur að þróunarsamvinnu. Ég er rosalega hrædd um hvað verður um strúktúrinn við þessa breytingu.