145. löggjafarþing — 36. fundur,  18. nóv. 2015.

alþjóðleg þróunarsamvinna Íslands o.fl.

91. mál
[19:02]
Horfa

Lárus Ástmar Hannesson (Vg) (um fundarstjórn):

Herra forseti. Ég hef ekki verið lengi á þessum vinnustað og ég ákvað að fylgjast með þeirri umræðu sem hér stendur yfir. Ég kom til hennar alveg opinn og vænti þess að hér tækju þátt einhverjir aðrir en bara þeir sem eru andsnúnir þessari færslu, en ég verð að viðurkenna að ég er mjög hissa á því sem verið er að gera hérna. Eftir því sem ég kynni mér þetta betur og eftir því sem ég heyri meira verð ég daprari yfir því að svona sé gengið fram.

Á þeim dögum sem ég hef verið hér hef ég orðið vitni að góðum hlutum og þurft að læra mikið og hratt en þetta finnst mér fyrir neðan allar hellur. Það er enginn til andsvara. Það er ekki verið að tala um einhverja stofnun tveggja manna eða eitthvert smotterí, þetta er ein þeirra stofnana (Forseti hringir.) sem við getum verið hvað stoltust af.