145. löggjafarþing — 36. fundur,  18. nóv. 2015.

alþjóðleg þróunarsamvinna Íslands o.fl.

91. mál
[19:10]
Horfa

Ögmundur Jónasson (Vg) (um fundarstjórn):

Hæstv. forseti. Ég efast ekki um að einhver kunni að spyrja nú hvort sá sem hér stendur sé að reyna að þæfa málið, sé í málþófi. Svarið er: Já, ég er að reyna að þæfa málið, ég er að reyna að koma í veg fyrir að umdeilt mál þar sem fram hafa komið alvarlegar ásakanir nái fram að ganga, að því ljúki umræðulaust af hálfu þeirra sem eru ábyrgir fyrir meintum rangtúlkunum. Það er það sem við erum að reyna að gera. Og hvenær skyldi stjórn þingsins skiljast, með fullri virðingu fyrir núverandi forseta, ég er að tala um þetta á breiðari grunni, að okkur er fullkomin alvara með þessu, að þegar fram koma alvarlegar ásakanir um mál sem liggur fyrir þingi og er nú til umræðu ætlumst við til þess að þeir sem eru ábyrgir fyrir því komi hingað og standi fyrir máli sínu? Um það snýst okkar beiðni.

Þess vegna beini ég því til hæstv. forseta að þegar í stað verði gert hlé á þessum fundi.