145. löggjafarþing — 36. fundur,  18. nóv. 2015.

alþjóðleg þróunarsamvinna Íslands o.fl.

91. mál
[19:12]
Horfa

Frsm. minni hluta utanrmn. (Össur Skarphéðinsson) (Sf) (um fundarstjórn):

Herra forseti. Hv. þm. Ögmundur Jónasson sagði að hér hefðu komið fram í ræðum margra þingmanna upplýsingar sem bentu til þess að um væri að ræða rangfærslur í greinargerð með frumvarpinu. Það er hárrétt hjá hv. þingmanni en það er ekki nóg með það heldur, eins og ég upplýsti hér, liggur fyrir að í umsögnum, eins og í umsögn Alþýðusambands Íslands, er þessu beinlínis haldið fram eftir að þeir sem umsögnina gerðu höfðu lesið álit þróunarsamvinnunefndarinnar. Þetta tvennt finnst mér benda til þess að ef hæstv. forseti væri sanngjarn mundi hann skilja þá beiðni sem við höfum lagt fram um að hæstv. ráðherra kæmi til fundarins til að skýra þetta og standa fyrir máli sínu. Hæstv. ráðherra hefur hins vegar ekki kjark og áræði til að fylgja málinu eftir þó að hér hafi komið fram margar lykilspurningar sem ekki er hægt að ætlast til að hv. formaður utanríkismálanefndar svari.