145. löggjafarþing — 36. fundur,  18. nóv. 2015.

alþjóðleg þróunarsamvinna Íslands o.fl.

91. mál
[19:13]
Horfa

Steinunn Þóra Árnadóttir (Vg) (um fundarstjórn):

Herra forseti. Fyrir aðeins nokkrum dögum tókst að ná þverpólitískri sátt í afar erfiðu máli sem snýr að náttúruvernd. Það var vegna þess að hæstv. ráðherra og hv. þingmenn úr bæði stjórnarmeirihluta og minni hluta lögðu á sig mikla vinnu þar sem allir aðilar slógu af sínum ýtrustu kröfum. Eftir því var tekið úti í samfélaginu og ég er sannfærð um að virðing Alþingis jókst allnokkuð við þau vinnubrögð.

Hér erum við hins vegar með mál sem er í alveg gríðarlega miklum átakafarvegi og um leið mjög skrýtnum því að aðeins annar aðili málsins tekur til máls varðandi það. Meiri hlutinn virðist ætla að þegja en fá málið í gegn í krafti meiri hluta síns. Ég veit ekki hver venjan er en mig langar að (Forseti hringir.) biðla til hæstv. forseta, að hann geri allt sem hann getur til að miðla hér málum og leggja þannig sitt af mörkum til að viðhalda (Forseti hringir.) virðingu Alþingis sem við höfum verið að endurheimta á síðustu dögum.