145. löggjafarþing — 36. fundur,  18. nóv. 2015.

alþjóðleg þróunarsamvinna Íslands o.fl.

91. mál
[19:22]
Horfa

Frsm. minni hluta utanrmn. (Össur Skarphéðinsson) (Sf) (um fundarstjórn):

Hæstv. forseti. Ég hef mikið langlundargeð gagnvart þeim forseta sem nú situr á forsetastóli og stýrir þingi. Upp úr klukkan 18, fyrir einum og hálfum tíma, hygg ég að hann hafi sagt að hann tæki þær athugasemdir sem hér komu til fram til greina með þeim hætti að hann mundi gera hæstv. forseta þingsins, Einari K. Guðfinnssyni, viðvart um óskir þingmanna. En síðan hefur hvorki heyrst hósti né stuna sem viðbragð við þeim óskum okkar. Mig langar til að spyrja hæstv. forseta hvort það sé virkilega ætlan hans að halda fram þessum fundi án þess að við þingmenn eigum kost á því að vita hvort hæstv. ráðherra muni koma hingað til fundar við okkur á morgun eða ekki.

Í annan stað óska ég eftir því að hæstv. forseti upplýsi um hvort honum hafi tekist að koma boðum til Einars K. Guðfinnssonar, hæstv. forseta Alþingis, og hvort nokkur viðbrögð hafi borist við því. Það er mikilvægt að við vitum það og fáum úr því skorið (Forseti hringir.) hvort hæstv. forseti hafi gert almennilegan reka (Forseti hringir.) að því að við fáum einhvers konar svör við þessum sanngjörnu óskum okkar.