145. löggjafarþing — 36. fundur,  18. nóv. 2015.

alþjóðleg þróunarsamvinna Íslands o.fl.

91. mál
[19:23]
Horfa

Þorsteinn Sæmundsson (F) (um fundarstjórn):

Hæstv. forseti. Það er tvennt í þessu máli sem mér þykir rétt að komi fram. Í fyrsta lagi þykir mér í meira lagi ósanngjarnt að menn skuli finna að því að hæstv. utanríkisráðherra sé ekki hér. Hann er búinn að sitja yfir þessu máli þegar það hefur verið rætt í þingsal og svarað (ÖS: Ha? …) þó nokkru af því sem til hans hefur verið beint. Ég verð því að finna að því að menn skuli koma hingað upp og gefa í skyn sem hann hafi ekki látið svo lítið sem vera hér við þessa umræðu, því að það er rangt.

Í annan stað vil ég láta þess getið, af því að eftirspurn hefur verið eftir afstöðu minni í þessu máli, að hún er þegar komin fram. Menn hafa bara ekki lagt við hlustir. Ég er þegar búinn að taka til máls í þessu máli og afstaða mín til þess liggur alveg klár fyrir. (Gripið fram í.) Ég er eindreginn stuðningsmaður þess að málið fái framgang (Gripið fram í.) og að frumvarpið verði samþykkt, eindreginn stuðningsmaður. Það hefur ekkert komið fram sem haggar því.