145. löggjafarþing — 37. fundur,  19. nóv. 2015.

2. umræða fjárlaga.

[10:33]
Horfa

Forseti (Einar K. Guðfinnsson):

Forseti hefur í sjálfu sér ekki fengið tilkynningu um að það muni ekki geta gengið að 2. umr. fjárlaga fari fram í næstu viku en hefur hins vegar frétt af því eins og aðrir í fjölmiðlum að það stefni í að svo verði ekki. Þá verðum við að horfa á málið út frá þeim sjónarhóli og átta okkur á því hvenær 2. umr. fjárlaga geti farið fram.

Það vita hins vegar allir að samkvæmt starfsáætlun þingsins var gert ráð fyrir því að 3. umr. fjárlaga gæti farið fram viku síðar. Ef búið er að ljúka stærri hluta fjárlagavinnunnar fyrir 2. umr. eins og oft hefur verið þá er ekki endilega sjálfgefið að líða þurfi vika milli umræðna. Þetta er hlutur sem forseti og forsætisnefnd þurfa að skoða þegar við höfum haft tækifæri til að átta okkur á þeirri stöðu sem kann að vera að koma upp, en forseti telur enga ástæðu til að örvænta þó að þessi umræða dragist um einhverja daga og það er ásetningur forseta að starfsáætlun að öðru leyti geti staðist.