145. löggjafarþing — 37. fundur,  19. nóv. 2015.

2. umræða fjárlaga.

[10:38]
Horfa

Össur Skarphéðinsson (Sf):

Herra forseti. Það er erfitt að átta sig á stöðunni innan Framsóknarflokksins. Það er hins vegar auðvelt að túlka ræðu hv. þm. Ásmundar Einars Daðasonar áðan sem beina árás á það sem hv. þm. og formaður fjárlaganefndar Vigdís Hauksdóttir sagði fyrir nokkrum dögum. Hv. þm. Ásmundur Einar Daðason kemur hér og skellir í góm og segir að það skipti nú engu máli þótt fjárlagavinnan tefjist kannski um einn eða tvo daga. En hvað var það sem hv. þm. Vigdís Hauksdóttir sagði hér um daginn? Hún sagði að verkleysi ríkisstjórnarinnar hefði bókstaflega leitt til þess að ónýst hefði sú breyting á þingskapalögum sem leiddi til þess að þing kom saman tveimur vikum fyrr en ella til þess að auðvelda fjárlagavinnuna og hún sagði: Ástæðan er einföld, mál ríkisstjórnarinnar komu ekki.

Hér gengur í salinn konan sem sagði um daginn að pönkið lifði enn þá í allsherjar- og menntamálanefnd, en gat þess jafnframt um leið að það vantaði 50 mál frá ríkisstjórninni sem hefðu verið boðuð. Það er þetta verkleysi, herra forseti, sem (Forseti hringir.) er að leiða til þess að þingið nær ekki að koma fram sínu helsta verki sem er að setja saman fjárlög.