145. löggjafarþing — 37. fundur,  19. nóv. 2015.

áhrif ferðamannastraums á grunnþjónustu sveitarfélaga.

[10:45]
Horfa

innanríkisráðherra (Ólöf Nordal) (S):

Hæstv. forseti. Það er alveg vafalaust að þessi grein skiptir mjög miklu máli í allri skipulagningu í sveitarfélögum landsins. Ég held að það sé mjög mikilvægt að draga sveitarfélög og Samband íslenskra sveitarfélaga að. Sveitarfélög víða um land hafa margoft komið að máli við okkur í innanríkisráðuneytinu heilt yfir til að fara yfir ýmis mál sem hvíla á sveitarfélögunum. Þetta er að sjálfsögðu eitt af þeim málum. Þess vegna held ég að það hafi verið mikilvægt að Samband íslenskra sveitarfélaga kæmi beint að þeirri vinnu sem ég vísaði til áðan, að það sæti við sama borð í því ásamt ríkisvaldinu og ferðaþjónustunni sjálfri til að tengja þessa ólíku aðila saman. Í þessu efni held ég að það sé alveg ljóst að ríki og sveitarfélög þurfa að ganga í takt þegar kemur að svona stórri, nýrri atvinnugrein sem við viljum viðhalda hér. Við viljum ekki lenda í því að eitthvað gerist sem verði til þess að hún hrökkvi til baka. Við viljum viðhalda henni þótt sjálfsagt búist enginn við því að línan liggi upp um alla framtíð, enda er það ekki endilega æskilegt.