145. löggjafarþing — 37. fundur,  19. nóv. 2015.

styrking tekjustofna sveitarfélaga.

[10:51]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S):

Herra forseti. Fyrirspyrjandi kom í fyrri fyrirspurn sinni inn á það að launakostnaður væri íþyngjandi fyrir sveitarfélögin umfram það sem gilti hjá ríkinu. Ég tel að með breyttu fyrirkomulagi við kjarasamningagerð til lengri tíma, sem nú er unnið að, verði meðal annars komið til móts við þann vanda. Það er engum blöðum um það að fletta að mjög miklar launahækkanir lenda þungt á sveitarfélögunum. Í raun og veru erum við að tala um að samið hefur verið um launahækkanir sem engin innstæða er fyrir. Það er staðan. Leiðir það til þess að við þurfum að gera breytingar á tekjuskiptingu? Ég er ekki sannfærður um það.

Ég gæti haldið svona áfram eins og til dæmis að tala fyrir því hvernig við getum lækkað vexti í landinu. Það mun koma sveitarfélögunum til góða. Þau eru mörg hver skuldsett og eiga erfitt með að standa undir háum vaxtakostnaði. Ergo, ef við náum að lækka vexti í landinu með því að byggja undir stöðugleikann mun það bæta stöðu sveitarfélaganna. Svona væri hægt að halda áfram.

Sumar tillögur sveitarfélaganna snúast beint um að fá (Forseti hringir.) hlutdeild í tekjustofnum ríkisins, aðrar snúa að öðrum leiðum eins og að breikka tekjustofnana, að veitt verði heimild til að taka skatta eða gjöld af fasteignum sem eru undanþegnar í dag. Þetta þarf ekki endilega að þýða að ríkið taki af sínu og afhendi sveitarfélögunum.