145. löggjafarþing — 37. fundur,  19. nóv. 2015.

fjárveiting til löggæslu.

[10:55]
Horfa

innanríkisráðherra (Ólöf Nordal) (S):

Forseti. Það er engum blöðum það að fletta hve mikilvæg löggæsla er í landinu, bæði þegar litið er til öryggismála í víðara samhengi og gagnvart almennri löggæslu hér á landi. Við höfum verið að reyna að bæta í eins og við höfum getað á undanförnum árum í löggæslumál. Við sjáum, vegna umfangs þeirra verkefna sem stöðugt aukast hér, að bæta þarf mun meira í. Þá erum við ekki einungis að tala um hvernig umfangið er í almennri löggæslu heldur eru líka að koma inn ný stór verkefni.

Við ræddum hér fyrr í fyrirspurnatímanum um ferðaþjónustuna. Stórkostleg aukning ferðamanna skapar svo sannarlega mikið álag á lögregluna og með dálítið öðrum hætti en við þekkjum frá því sem áður var, enda erum við að tala um ferðamenn sem dreifa sér um landið sem þýðir að líka þarf að líta til löggæslunnar á landsbyggðinni, ekki bara löggæslunnar í Reykjavík.

Í ráðuneytinu er núna í vinnslu löggæsluáætlun. Þar verður reynt að gera grein fyrir nákvæmri þörf lögreglunnar. Þá eru nokkrir þættir sem þarf að hafa í huga: Það er þjónustustigið. Hvert þarf það að vera? Hvert er umfangið? Það er öryggisstigið og þá lítum við til þess í víðu samhengi, t.d. landamæraeftirlits sem við þurfum sannarlega að horfa mjög mikið á. Við vitum ekki hvernig álagið verður á landamærum á næstunni. Mannaflaþörfin ræðst síðan af þjónustu- og öryggisstiginu. Að lokum: Hvað þurfum við mikið fé?

Ég er alveg viss um að þegar við leggjum fram skýrar hugmyndir um þetta þá verður stuðningur þingsins alveg klár. Ég hef skynjað það í þingsölum þegar kemur að löggæslunni að þingið hefur skilning á því að mikilvægt er að bætt verði úr aðstæðum löggæslunnar. Ég mun reyna eins og ég get núna á næstunni að finna meira fé til þess að (Forseti hringir.) leggja til löggæslumála. Ég er viss um að þingið verður samferða mér í þeirri vegferð.