145. löggjafarþing — 37. fundur,  19. nóv. 2015.

breyting á tollum og vörugjöldum.

[11:00]
Horfa

Heiða Kristín Helgadóttir (Bf):

Virðulegur forseti. Hæstv. fjármálaráðherra hefur verið að vinna að því að lækka tolla og vörugjöld á ýmsum nauðsynjavörum sem hafa bein áhrif á útgjöld heimilanna. Einnig hafa verið gerðar breytingar á virðisaukaskatti á samsvarandi vörur. Ef mig minnir rétt þá hefur virðisaukaskattur á smokka, bleiur og bleiufóður verið lækkaður en skattur á dömubindi og túrtappa hefur hins vegar verið ósnertur í 24%.

Ég tek undir með þeim konum sem spyrja: Hvers vegna er verið að skattleggja á mér legið? Ég spyr því hæstv. ráðherra hverju þetta sætir og hvort unnið sé að því í ráðuneyti hans að lækka þessa skatta.