145. löggjafarþing — 37. fundur,  19. nóv. 2015.

breyting á tollum og vörugjöldum.

[11:01]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S):

Herra forseti. Þær breytingar sem vitnað var til horfðu til þess að létta innkaup fyrir barnafjölskyldur og það var til samræmingar sem nokkrir aðrir vöruflokkar flutu með þegar bleiur voru færðar í neðra skattþrepið. Við lögðum á þeim tíma mikla áherslu á það að gera ungu fólki sem ljóst var að átti erfiðast af öllum með að ná endum saman auðveldara að ná því markmiði.

Varðandi frekari breytingar á virðisaukaskattskerfinu þá hefur okkar vinna fyrst og fremst miðað að því að fækka undanþágum og einfalda kerfið. Við stigum mjög stórt skref þegar við breyttum almenna þrepinu í 24% með stóru kerfisbreytingunni fyrr á þessu kjörtímabili. Með því var almenna þrepið fært niður í lægsta þrep sem það hefur frá því að virðisaukaskattskerfið var innleitt. Við gerðum líka breytingar á neðra þrepinu með því að það var hækkað og við erum að taka inn í neðra þrepið ýmsa flokka sem eru undanþegnir.

Varðandi þær vörur sem spurt er um, dömubindi, túrtappa og slíka hluti, þá væri svo auðvelt að halda áfram að telja upp ýmislegt sem ágætt væri að hafa í lægra virðisaukaskattsþrepi en þá stöndum við frammi fyrir þeirri spurningu: Viljum við hafa almennt þrep og fáar undanþágur eða ætlum við að vera með einhvers konar tveggja þrepa kerfi þar sem við dreifum þessu jafnt á þrepin? Mín skoðun er sú að við eigum að vera með sterkt virðisaukaskattskerfi og reyna að draga áfram úr þeim mun sem er á milli þrepanna, fækka undanþágum, taka inn í kerfið ýmsa hluti eins og hópferðabíla og slíka hluti sem eru að koma inn í kerfið núna, t.d. ferðaþjónustuaðila. Það mun gefa okkur svigrúm til að draga úr beinum sköttum eins og tekjuskattinum.