145. löggjafarþing — 37. fundur,  19. nóv. 2015.

breyting á tollum og vörugjöldum.

[11:04]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S):

Herra forseti. Það er einmitt þannig með svo margt sem hefur fallið undir vörugjaldaflokkinn. Ýmsar barnavörur, t.d. barnakerrur, hafa fallið í tollaflokka ef þær koma ekki frá löndum þar sem við vorum með tvísköttunarsamninga. Við höfum því gert grundvallarbreytingar með því að afnema öll almennu vörugjöldin og með því skrefi sem við vorum núna að boða, að fella á brott alla tolla nema þá sem fyrirfinnast á matvöru, þá erum við að stíga í raun og veru sögulegt skref sem er svo margfalt, kannski mörg hundruðfalt stærra en að pikka út einn eða tvo vöruflokka og segja: Við ætlum að færa þessar tvær vörur á milli virðisaukaskattsþrepa.

Annars vil ég segja almennt um virðisaukaskattsþrepin: Þetta er ekki fullkomið verk og það verður aldrei fullkomið. Þessa smíði er aldrei hægt að fullgera. Það er alltaf hægt að finna vörur í efra þrepinu sem gætu alveg eins verið í neðra þrepinu (Forseti hringir.) eins og sumt sem þar er og hægt er að segja það sama um sumt sem er í neðra þrepinu, hvers vegna ætti það ekki að vera í efra þrepinu. Við sitjum uppi með þetta sem hálfófullkomið verk sem hægt er að hafa endalausar skoðanir á.(Forseti hringir.)

Langtímasýn mín er eitt virðisaukaskattsþrep. Ég ætla að vera raunsær. Ég held að það sé ekki stuðningur við það í þinginu að fara í eitt þrep að sinni.