145. löggjafarþing — 37. fundur,  19. nóv. 2015.

25 ára reglan í bóknámi.

[11:08]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S):

Herra forseti. Þetta er mál sem menntamálaráðherra hefur margoft svarað fyrir. Vissulega er rétt að hér er komið inn á stefnubreytingu sem ríkisstjórnin hefur staðið á bak við. Grunnhugsunin er sú að okkur hefur skort fjármagn á bak við hvern nemanda í framhaldsskólakerfinu. Við höfum líka séð að námsframvindan í framhaldsskólakerfinu og öllu grunnnámi fram að háskólanámi er ófullnægjandi þegar við berum okkur saman við OECD-þjóðirnar, Norðurlandaþjóðir eða aðra þá sem við erum vön að bera okkur saman við. Það hefur tekið okkur lengri tíma að koma nemendum til háskólanáms en samanburðarþjóðirnar. Við þessu er verið að bregðast, m.a. með því að setja 25 ára regluna og segja: Við ætlum síðast að forgangsraða fjármunum í þágu þeirra sem eru 25 ára eða eldri. Fyrir þann hóp eru önnur úrræði.

Ef maður hugsar til þess eiga unglingar sem koma 16 ára inn í framhaldsskólakerfið í beinu framhaldi af grunnskólanáminu svo sem ekki mikla samleið í sjálfu sér með þeim sem eru tíu árum eldri eða meira. Hvaða erindi eiga þeir sem eru orðnir 25 ára eða eldri, ef maður hugsar málið í þessu samhengi, inn á skólabekk með unglingum? Við hljótum að geta fundið fleiri úrræði og aðrar leiðir. Fyrirspyrjandi kom inn á nokkrar þeirra, háskólabrúna, endurmenntunarstofnun Keilis, og símenntunarstöðvar. Sérstakir fjármunir hafa verið settir í þessi úrræði til að gera þeim sem eru komnir á þennan aldur kleift að ljúka stúdentsprófi og halda síðan námi sínu áfram. Í sumum tilvikum er svigrúm fyrir þessa nemendur í skólunum. Með þessari stefnubreytingu (Forseti hringir.) er því meginmarkmiði náð að tryggja að þeir fjármunir sem eru til ráðstöfunar fyrir framhaldsskólakerfið nýtist til að kenna þeim sem við viljum setja í forgang á því skólastigi.