145. löggjafarþing — 37. fundur,  19. nóv. 2015.

viðvera utanríkisráðherra við umræðu um ÞSSÍ.

[11:15]
Horfa

Valgerður Bjarnadóttir (Sf):

Forseti. Ég tek undir með flokksbræðrum mínum sem hafa talað undir þessum lið hérna á undan að það er eiginlega óviðunandi að hefja þessa umræðu á ný án þess að hæstv. utanríkisráðherrann sé hér til að svara fyrir það sem þessu máli fylgir. Það er ekki hægt að ætlast til þess að hv. þm. Hanna Birna Kristjánsdóttir svari fyrir hann í þessu. Hún var ekki í nefndinni á síðasta vori þegar þetta var rætt þar og fregnir herma að málið hafi ekkert verið rætt í nefndinni núna og ekki var farið yfir umsagnir. Það er því alls ekki hægt að ætlast til þess að hún geti svarað fyrir þá gagnrýni sem kemur fram í umræðum á þetta frumvarp.

Ég vil spyrja hæstv. forseta hvort við eigum von á hæstv. utanríkisráðherra hingað í dag.