145. löggjafarþing — 37. fundur,  19. nóv. 2015.

viðvera utanríkisráðherra við umræðu um ÞSSÍ.

[11:19]
Horfa

Ásmundur Einar Daðason (F):

Virðulegi forseti. Hér er um að ræða mál í 2. umr. Ráðherra var viðstaddur 1. umr. málsins þegar það var fyrst borið upp. Þingið heldur á þessu máli. Þetta mál var afgreitt út úr ríkisstjórn, út úr stjórnarflokkum, það var afgreitt úr utanríkismálanefnd með meiri hluta nefndarinnar bæði á þessu þingi (Gripið fram í.)og síðasta löggjafarþingi. Þeir sem tala um að málið njóti ekki pólitísks stuðnings munu sjá hver niðurstaðan verður í atkvæðagreiðslu um það þegar þeir fjölmörgu stjórnarandstæðingar sem eru á mælendaskrá hafa lokið ræðum sínum og andsvörum hver við annan eins og við sáum í gær. Þá fáum við þetta mál til atkvæðagreiðslu. Þá sjáum við hvort það er pólitískur stuðningur á bak við það.

En af því að menn voru að tala um pólitísk hrossakaup þá er það eiginlega hálfspaugilegt að það skuli koma frá hv. þm. Össuri Skarphéðinssyni sem skrifaði einmitt heila bók um pólitísk hrossakaup hér á síðasta kjörtímabili. Það eru engin pólitísk hrossakaup í þessu máli. Þetta er mál sem liggur fyrir þinginu og gerði það einnig á síðasta þingi og bíður þess að 2. umr. klárist og það komi að atkvæðagreiðslu og þá fáum við að sjá hvort það er pólitískur stuðningur við málið eða ekki. En það gerist ekki fyrr en að stjórnarandstaðan hættir í andsvörum við sjálfa sig.