145. löggjafarþing — 37. fundur,  19. nóv. 2015.

viðvera utanríkisráðherra við umræðu um ÞSSÍ.

[11:23]
Horfa

Margrét Gauja Magnúsdóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Ég verð að fá að segja að ég er mjög hissa. Þetta er ein æðsta lýðræðisstofnun landsins og mér finnst þetta mjög ólýðræðisleg vinnubrögð. Skorturinn á gagnsæi í þess máli finnst mér skína í gegn. Hér var þingmaður í pontu að tala um að stjórnarandstæðingar væru í andsvörum við sjálfa sig en það er kannski líka til að reyna að varpa ljósi á málið. Ekki er neinn í salnum frá stjórnarmeirihlutanum til að veita andsvör í málinu.

Hvernig á upplýst umræða að fara fram? Alþingi er ekkert eitt á báti, það er fylgst með því. Almenningur krefst svara og umræðu til að geta myndað sér skoðun og það er skylda þingmanna að veita umræðuna svo almenningur geti myndað sér skoðun.

Ég get ekki myndað mér skoðun á þessu máli. Ég fæ ekki að heyra hin rökin.