145. löggjafarþing — 37. fundur,  19. nóv. 2015.

viðvera utanríkisráðherra við umræðu um ÞSSÍ.

[11:26]
Horfa

Steinunn Þóra Árnadóttir (Vg):

Herra forseti. Mér finnst alveg óskaplega dapurlegt með mál af þessu tagi, sem snýst um það hvernig ein af ríkustu þjóðum heims ætlar að standa að þróunarsamvinnu sem beinist að því að aðstoða fátækustu ríki heims við að byggja upp innviði sína, að það eigi bara að afgreiða með því að ráðherra hafi sagt eitthvað við 1. umr. um málið og sé svo fjarverandi þrátt fyrir að það sé kallað eftir veru hans hér og svo eigi það bara að ráðast í atkvæðagreiðslu að lokum án þess að það verði alvöruumræða. Líkt og hv. þm. Margrét Gauja Magnúsdóttir kallaði eftir áðan vantar debattinn. Okkur vantar rökin fyrir því af hverju hv. þingmenn meiri hlutans vilja styðja þetta mál. Af hverju tala þeir ekki við okkur hérna? Ég kallaði eftir því og geri það aftur núna. Alþingi er nýbúið að sýna að það er hægt að ná samkomulagi í stórum og erfiðum málum. Mér finnst að nefndin eigi að taka þetta mál aftur til sín og vinna það með ráðherranum. Allir þurfa örugglega (Forseti hringir.) eitthvað að slá af sínum kröfum þar en þannig finnst mér að við verðum að fara með svona stórt og viðkvæmt mál. Þetta gengur ekki svona.