145. löggjafarþing — 37. fundur,  19. nóv. 2015.

viðvera utanríkisráðherra við umræðu um ÞSSÍ.

[11:33]
Horfa

Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir (Vg):

Herra forseti. Mér leiðist þetta orðfæri „að láta eitthvað eftir minni hlutanum“. Þetta snýst ekki um að láta eftir minni hlutanum eins og hv. formaður fjárlaganefndar sagði áðan. Það er ekki bara hlutverk ráðherra að reifa mál og senda þau svo til þingsins. Það geta komið upp atvik eins og hér hafa orðið í umræðunni eins og við þekkjum, mál þroskast þegar þau eru rædd. Ég velti fyrir mér hvað hamli skoðanaskiptum meiri hlutans, hvort fulltrúar meiri hlutans telji ekki að það geti leitt til þess að umræðan gangi hraðar fyrir sig ef þau taka þátt, ef þau vita betur, ef þau geta svarað þeim spurningum sem fram hafa komið. Ráðherrann er búinn að tala í 36 mínútur í málinu frá upphafi, 36 mínútur, þar af voru níu mínútur í flutningsræðu, bara til að það sé sagt. Það hefur verið talað í langan tíma um þetta mál vegna þess að það er mikilvægt og það er alvarlegt.

Ég velti því fyrir mér, af því að hv. formaður fjárlaganefndar talaði hér áðan, að Ríkisendurskoðun hefur mælt þessari (Forseti hringir.) stofnun bót og sagt (Forseti hringir.) að hún sé ein best rekna stofnun landsins. Er það ekki eitthvað sem við viljum hafa til (Forseti hringir.) hliðsjónar þegar við horfum á málin og stofnanir á vegum þingsins (Forseti hringir.) t.d. þegar kemur að fjárlagagerðinni? Ég tek undir það sem sagt hefur verið um opinberu fjármálin. (Forseti hringir.) Þar var málið lagfært mikið þrátt fyrir (Forseti hringir.) að ekki yrðu allir á því að lokum.