145. löggjafarþing — 37. fundur,  19. nóv. 2015.

alþjóðleg þróunarsamvinna Íslands o.fl.

91. mál
[12:03]
Horfa

Lárus Ástmar Hannesson (Vg) (andsvar):

Forseti. Ég þakka þingmanni fyrir mjög áhugaverða yfirferð á málinu sem ég vil meina að sé hálfgert leiðindamál. Það er sérstakt að verða vitni að slíkum vinnubrögðum hérna á fyrstu dögum mínum á þingi. Ég veit að hv. þingmaður er reynd í þessu starfi og búin að vera hér svolítinn tíma, var m.a. í utanríkismálanefnd. Þess vegna vil ég beina mínu máli til hv. þingmanns og spyrja hana: Hvernig metur hún þetta mál miðað við eigin reynslu og hvaða leiðir sér hún út úr því? Hvað er í stöðunni? Það er alveg ljóst að við þurfum einhvern veginn að vinna það betur og öðruvísi og í meiri sátt og geta bent meira á faglega þáttinn í því, rekstrarlega þáttinn o.s.frv.

Mig langar að fá hv. þingmann til þess að fara yfir það með mér. Hvernig getum við farið með þetta mál þannig að við fáum betri niðurstöðu en klárlega virðist ætla að verða raunin? Hins vegar langar mig aðeins að ræða gagnsæi stofnana. Mér skilst að við það að starfsemin hætti að vera í sérstakri fagstofnun og fari yfir í ráðuneyti breytist möguleikarnir á eftirliti og gagnsæi og slíku. Það er það sem mig langar að fara yfir í þetta sinn.