145. löggjafarþing — 37. fundur,  19. nóv. 2015.

alþjóðleg þróunarsamvinna Íslands o.fl.

91. mál
[12:05]
Horfa

Valgerður Bjarnadóttir (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Þegar ég var að hugsa um þetta á leiðinni í strætó í morgun kom upp í huga mér að þetta væri eiginlega ólukkumál. Þetta er hálfgert ólukkumál. Það er mikil synd að búið sé að koma því í þann farveg þar sem það er nú. Ég get sagt að ég hef ekki fyrr orðið vör við nákvæmlega þetta. En þetta er náttúrlega svolítið líkt því sem gerst hefur hér, eins og þegar þáverandi hæstv. umhverfisráðherra lagði til að náttúruverndarlögin sem búið var að vinna að í meira en fjögur ár væru afnumin. Því var bjargað. Það eru fleiri dæmi um að menn hafi komist hér að skynsamlegri niðurstöðu en stundum hefur stefnt í. Ég held að það sem hægt væri að gera núna við þetta frumvarp væri að við skoðuðum það betur. 3. gr. er um þróunarsamvinnunefnd, eins og ég nefndi áðan. Síðan er talað um hlutverk hennar og talað um hvernig móta eigi stefnu stjórnvalda í hinni alþjóðlegu þróunarsamvinnu. Ég vildi óska þess að formaður utanríkismálanefndar beitti sér fyrir því að taka málið aftur til nefndar og að við huguðum að þessum efnum að sinni. Hugum að yfirbyggingunni, þróunarsamvinnunefndinni, hugum að því hvernig stefnan er mótuð, breytum því ef þess þarf, en geymum þá afdrifaríku ákvörðun að leggja niður sjálfstæða, faglega stofnun.