145. löggjafarþing — 37. fundur,  19. nóv. 2015.

alþjóðleg þróunarsamvinna Íslands o.fl.

91. mál
[12:20]
Horfa

Valgerður Bjarnadóttir (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er alltaf hægt að setja fordæmi með því hvernig menn umgangast þennan málaflokk. Ef við umgöngumst hann illa eins og virðist vera gert hérna þá dettur manni jafnvel í hug að leikurinn sé að hluta til til þess gerður að forðast það að fara í þessa jafningjaúttekt, að það liggi svona mikið á að koma þessu í gang núna fyrir áramótin svo að ekki verði af jafningjaúttektinni, því að þá raungerist kannski ekki sú breyting á skipulaginu á þróunarsamvinnu sem sumum embættismönnunum er svo mikið í mun að gerist. Ég velti því fyrir mér hvort það geti verið.

Aðeins á ská við því sem þingmaðurinn var að spyrja um þá finnst mér eins og Þróunarsamvinnustofnun hafi tekist að útvega peninga sem við höfum getað notað. Ég held að talað sé um að hún hafi fengið 700 milljónir frá erlendum stofnunum í íslensk verkefni. Ég get ekki skilið hvernig það á að vera hægt að erlendar stofnanir fari að styrkja verkefni sem eru beinlínis á vegum einhvers ráðuneytis. Ég get ekki séð að það muni nokkurn tímann ganga upp í stofnanastrúktúr heimsins, ef ég má orða það svo. Ég á bágt með að skilja það. Ég held að þetta sé hin mesta óheillaför, virðulegi forseti.