145. löggjafarþing — 37. fundur,  19. nóv. 2015.

alþjóðleg þróunarsamvinna Íslands o.fl.

91. mál
[12:25]
Horfa

Frsm. minni hluta utanrmn. (Össur Skarphéðinsson) (Sf) (um fundarstjórn):

Herra forseti. Ég vil sérstaklega taka undir með síðasta ræðumanni. Það er vissulega fagurt víða um Vestfirði, og þó einkum og sér í lagi í Dýrafirði, sem tilheyrir einmitt Ísafirði þar sem hæstv. utanríkisráðherra var í gær.

Við komum með rökstuddar óskir um það í gær að hæstv. ráðherra kæmi hér til fundar til að skýra ákveðin mál. Sömuleiðis til að skýra þær fullyrðingar sem komu fram um að hæstv. ráðherra hefði staðið í pólitískum hrossakaupum til að þvinga í gegn þetta óþarfa, heimskulega mál sem enginn stuðningur virðist vera fyrir í þinginu.

Ef hæstv. ráðherra hefði viljað leggja lóð á vogarskálar, til að greiða fyrir för málsins, þá er það þannig að flugvélin frá Ísafirði lenti í Reykjavík kl. 10.40. Hann er þrjár klukkustundir að aka til fundar við sína elskulegu framsóknarmenn í Skagafirði. Hann hefði getað verið hér lungann úr deginum, að minnsta kosti staldrað við í tvo til þrjá tíma, til að eiga samræður við þingið yfir þetta púlt til að skýra málstað sinn. En hann kaus að gera það ekki.

Hæstv. ráðherra hefur ekki kjark, þrek og burði til að koma hingað og standa fyrir sínu eigin máli. Það er staðreyndin og við ætlum ekki að hætta fyrr en hæstv. (Forseti hringir.) ráðherra kemur og stendur fyrir máli sínu og skýrir hvað liggur að baki þeim fullyrðingum sem hv. þm. Ögmundur Jónasson setti hér fram í gær með mörgum sterkum rökum.