145. löggjafarþing — 37. fundur,  19. nóv. 2015.

alþjóðleg þróunarsamvinna Íslands o.fl.

91. mál
[12:31]
Horfa

Valgerður Bjarnadóttir (Sf) (um fundarstjórn):

Forseti. Ég hlýt að rifja aftur upp ræðu hv. þm. Ásmundar Einars Daðasonar hér áðan þar sem hann segir: Það er sagt að ekki sé meiri hluti hér, það á eftir að koma í ljós í atkvæðagreiðslu. Málið hefur verið afgreitt í ríkisstjórn, málið hefur verið afgreitt út úr stjórnarflokkum og síðan ekki söguna meir. Síðan segir hann bara að þingmenn í ríkisstjórn hafi setið á ríkisstjórnarfundum og afgreitt þetta mál og þeir sem eru í stjórnarflokkum hafi afgreitt þetta mál þaðan.

Af hverju afgreiddu þessir þingmenn þetta út úr flokkunum? Getum við fengið rök fyrir því af hverju það var gert? Við sem hér erum og tökum þátt í þessari umræðu skiljum ekki rökin fyrir þessu. Geta þessir ágætu þingmenn, sem telja að það eigi bara að vera þannig að mál séu afgreidd í þingflokksherbergjum eða á ríkisstjórnarskrifstofum, sagt okkur af hverju í ósköpunum þeir gerðu þetta?

Af hverju ákváðu þeir þetta? (Forseti hringir.) Við skiljum það ekki, útskýri þeir það fyrir okkur. Og hvar er utanríkisráðherrann, virðulegi forseti?