145. löggjafarþing — 37. fundur,  19. nóv. 2015.

alþjóðleg þróunarsamvinna Íslands o.fl.

91. mál
[12:34]
Horfa

Kristján L. Möller (Sf) (um fundarstjórn):

Hæstv. forseti. Þetta mál er algerlega munaðarlaust hér á Alþingi. Við höfum gagnrýnt það mjög að ráðherrann skuli taka það fram yfir þinglegar skyldur sínar, fram yfir það að reyna að færa rök fyrir þessu ólánsmáli sínu, að funda með framsóknarmönnum vestur á fjörðum og í Skagafirði í kvöld. Þar að auki, sem er líka mjög óeðlilegt, sýnist mér að í mesta lagi tveir eða þrír nefndarmenn úr utanríkismálanefnd hafi verið hér í morgun að ræða þetta, eða í gær.

Það ber að telja þeim það til hróss þeim sem eru hér. Ég sé til dæmis að hv. þm. Silja Dögg Gunnarsdóttir er hér yfir málinu, en hún tekur ekki þátt í umræðum, hún tekur ekki þátt í andsvörum, hún reynir ekki að færa fram rök. Og hv. formaður nefndarinnar, hv. þm. Hanna Birna Kristjánsdóttir, er ekki hér í salnum, hún tekur ekki þátt í umræðum.

Hér hefur komið fram að þrír nýir nefndarmenn eru í nefndinni og þetta var rifið út með hraði, sennilega eftir tilskipun frá hæstv. ráðherra um að klára þetta í hvelli. Ég mun gera athugasemd við það í ræðu minni. Ég krefst þess að ráðherrann, og þeir í utanríkismálanefnd sem bera ábyrgð á þessu máli, sé þá hér til svara fyrir það sem ég ætla að spyrja um.