145. löggjafarþing — 37. fundur,  19. nóv. 2015.

alþjóðleg þróunarsamvinna Íslands o.fl.

91. mál
[12:36]
Horfa

Frsm. minni hluta utanrmn. (Össur Skarphéðinsson) (Sf) (um fundarstjórn):

Herra forseti. Ein af þeim prinsippspurningum sem hafa vaknað við þessar umræður er þessi: Hvort er það forgangur hjá hæstv. ráðherra að flækjast um landið á milli framsóknarfélaga til að tala upp í sína góðu félaga eða að koma hingað og standa fyrir máli sínu, svara spurningum varðandi þingmál sem hann leggur sjálfur fram? Færð hafa verið sterk rök fyrir því að málið nýtur ekki stuðnings þingmanna. Það hefur ekki nema einn þingmaður úr hans eigin flokki lýst stuðningi við það úr ræðustól og sannfæring þess ágæta þingmanns, hv. þm. Þorsteins Sæmundssonar, var ekki meiri en svo að það tók ekki nema tvær mínútur fyrir hann að koma stuðningi sínum á framfæri. Síðan hefur hann ekki séð neina sérstaka ástæðu til að ítreka það í ræðu.

Ég fer fram á það að þessari umræðu verði frestað þangað til hæstv. ráðherra kemur til fundar við Alþingi og útskýrir sitt mál. Eða ætlar hann að koma fram við okkur eins og starfsmenn Þróunarsamvinnustofnunar sem skelkaðir spurðu hann hvaða röksemdir lægju að baki því að leggja stofnunina niður? Og hæstv. ráðherra svaraði, eftir því sem upplýst var á fundi utanríkismálanefndar: Ég þarf engar röksemdir. Hann einn hefur valdið. Þetta er auðmýkt þessarar ríkisstjórnar.