145. löggjafarþing — 37. fundur,  19. nóv. 2015.

alþjóðleg þróunarsamvinna Íslands o.fl.

91. mál
[12:37]
Horfa

Lárus Ástmar Hannesson (Vg) (um fundarstjórn):

Herra forseti. Ég kem hér aftur til að ræða þetta undarlega mál allt saman. Mér fannst hv. þm. Össur Skarphéðinsson koma inn á forvitnilegan punkt áðan varðandi þann möguleika sem hefði verið í stöðunni fyrir ráðherra að vera hér yfir þessari umræðu og taka þátt í henni og koma með gagnrök, sem ég hef ekki enn fengið að heyra og rek ekki alveg augun í.

Það hefði verið möguleiki að fljúga frá Ísafirði í morgunsárið og vera hér yfir daginn og ræða við okkur og keyra svo norður í fjörðinn fallega þegar líða tæki á daginn. Það hefði verið góður möguleiki. Það virðist bara ekki hafa verið áhugi fyrir því. Kannski er það út af því að það er mjög erfitt fyrir hæstv. ráðherra að taka þessa umræðu, ég held að það sé bara þannig. Það eru engin rök með þessu og þetta verður mjög erfið umræða. Hún er farin að skýrast eftir því sem fleiri taka hér til máls.