145. löggjafarþing — 37. fundur,  19. nóv. 2015.

hugmyndir um einkavæðingu Landsbankans.

[13:44]
Horfa

Valgerður Bjarnadóttir (Sf):

Virðulegur forseti. Ég vil byrja á að þakka hv. þm. Ástu Guðrúnu Helgadóttur fyrir að hefja þessa umræðu. Það er hárrétt hjá hæstv. ráðherra að tíminn er stuttur sem hann hefur til að svara, en það breytir því ekki að spurningarnar sem hv. þingmaður bar fram skipta miklu máli. Það þarf að fá svör við þeim og við eigum ekki að vera óþolinmóð þótt um sé spurt og það er líka sjálfsagt að spyrja hvort til standi að selja bankann, hvort til standi að gera það vegna þess að margt í starfi ríkisstjórnarinnar er svo óljóst, því miður. Við fréttum af þessu og hinu en höfum það ekki alveg fyrir framan okkur hvað á að gera.

Svo er það náttúrlega hárrétt sem kemur fram hjá hæstv. ráðherra að þegar ríkið virðist vera á leiðinni með það að vera komið með tvo af þremur bönkum í fangið, þá er enn meira áríðandi að við, þingið, fólkið í landinu viti hvað menn ætlast fyrir. Svo getur vel verið að ekki verði allir sammála því sem menn ætlast fyrir. En fyrst og síðast þarf fólk að vita hvað ætlast er fyrir þannig að fólk geti þá rætt það sín á milli og haft á því skoðanir, því að það hlýtur að vera eðlilegt að fólkið í landinu hafi skoðanir á því hvernig farið verður með umræddar eignir.

Ég gleðst yfir því sem hæstv. ráðherra segir, að hann eigi von á greinargerð fyrir áramótin. Mig langar að beina því að að sú greinargerð yrði helst opinber, hún færi alla vega í efnahags- og viðskiptanefnd, en yrði helst opinber, og að hafa þetta allt uppi á borðum. Vissulega er það mjög áríðandi og mikil ábyrgð er (Forseti hringir.) sem ríkisstjórnin þarf að taka á sig í þessum efnum en það er ekkert athugavert við það að spurt sé.