145. löggjafarþing — 37. fundur,  19. nóv. 2015.

hugmyndir um einkavæðingu Landsbankans.

[13:49]
Horfa

Páll Valur Björnsson (Bf):

Forseti. Ég vil byrja á því að þakka málshefjanda fyrir þessa umræðu. Hún er mjög þörf og nauðsynleg. Ef stendur til hjá ríkinu að selja eignir þá á umræða um það að fara fram í þingsal og allir hafðir með í ráðum. Ég verð að segja eins og er að þegar ég heyri orðin einkavæðing, Landsbanki, Framsóknarflokkur og Sjálfstæðisflokkur þá fer nettur hrollur um mig og lái mér hver sem vill. Ekki tókst svo skemmtilega til síðast þegar þetta var gert í upphafi aldarinnar.

Maður veltir því fyrir sér líka eins og kom fram hjá hv. þingmanni sem talaði hér á undan mér, hv. þm. Lárusi Ástmari Hannessyni, hvort við eigum að vera að selja fyrirtæki sem skilar svona gríðarlega miklum arði til eigendanna.

En það er annað sem ég velti fyrir mér. Á síðasta kjörtímabili var samþykkt þingsályktun þess efnis að hefja rannsókn á einkavæðingu þessara banka og þar stendur m.a., með leyfi forseta:

„Nefndin fjalli um gerð og innihald samninga við kaupendur bankanna, mat á eignum bankanna og að hve miklu leyti það samræmdist söluverði þeirra, efndir samninga og undanþágur frá ákvæðum þeirra, þ.m.t. afslætti frá kaupverði. Þá verði fjallað um eftirlit og ábyrgð með framfylgd samninganna.

Nefndin beri einkavæðingu íslensku bankanna saman við sölu opinberra fjármálafyrirtækja í nágrannalöndum og leggi fram tillögur til úrbóta varðandi sölu á eignarhlutum ríkisins í framtíðinni.“

Að lokum:

„Nefndin leggi mat á þær afleiðingar sem framkvæmd einkavæðingar bankanna hafði fyrir íslenskt samfélag.“

Ég held að það sé einhver alstærsta spurning sem við þurfum að svara þegar við erum að tala um að einkavæða hluti hvaða áhrif hefur það á íslenskt samfélag. Það er alveg ljóst að einkavæðing bankanna í upphafi aldarinnar hafði skelfilegar afleiðingar fyrir íslenskt samfélag. Þar er vægt til orða tekið og miklu fróðari menn en ég í þessum málum segja að það hafi verið upphafið að hruninu. En umfram allt, ef við ætlum að fara að selja bankana, sem er kannski ekki svo vitlaust eins og hæstv. fjármálaráðherra nefnir, að það verði í dreifðu eignarhaldi og ríkið eigi 40%, ég er ekkert endilega á móti því, kannski er það bara mjög gott, þá verðum við að herða eftirlit og eftirfylgni með því og gera þetta vel og vanda okkur.