145. löggjafarþing — 37. fundur,  19. nóv. 2015.

hugmyndir um einkavæðingu Landsbankans.

[13:51]
Horfa

Frosti Sigurjónsson (F):

Virðulegi forseti. Ég fagna þessari umræðu um hugmyndir um einkavæðingu Landsbankans eða sölu á hlut í honum. En í ljósi aðstæðna virðist alls ekki vera tímabært fyrir ríkissjóð að selja 30% hlut ríkisins á næsta ári og alls ekki ef markmiðið er að fá viðunandi verð fyrir eignarhlutinn. Það er óhætt að fullyrða að framboð á hlutabréfum í bönkum hefur aldrei verið meira en einmitt nú og við þær aðstæður getur ríkið ekki búist við að fá viðunandi verð.

Slitabú Kaupþings býður nú Arion banka til sölu og ef svo fer sem horfir að ríkissjóður eignist Íslandsbanka að fullu og setji hann í söluferli þá verða hér í boði bankar sem eru með eigið fé upp á 370 milljarða samanlagt. Það er gríðarleg fjárhæð, umtalsvert hærri en heildarumsvif á hlutabréfamarkaði ársins 2014.

Vegna þessa mikla framboðs hlýtur að vera skynsamlegt að bíða með áform um sölu Landsbankans þar til sala hinna bankanna er um garð gengin og markaðurinn er tilbúinn að taka við meiru. Það gæti tekið allnokkur ár. Sem betur fer liggur alls ekkert á að selja eignarhlut ríkisins í Landsbankanum. Bankinn hefur skilað ríkissjóði mjög góðum arði og fátt bendir til annars en að arðsemi bankans verði ágæt á næstu árum.

Í fjárlögum fyrir árið 2016 er gert ráð fyrir aðeins 7 milljarða kr. arði af Landsbankanum. En miðað við afkomu ársins má búast við því að arðurinn verði margfalt hærri, líklega um 30 milljarðar. Þá er ótalið svigrúm Landsbankans til að greiða út sérstaka arðgreiðslu vegna þess að eigið fé bankans er talsvert umfram það sem reglur gera ráð fyrir. Slík arðgreiðsla gæti verið að stærðargráðunni 20 milljarðar. Landsbankinn gæti því á næsta ári greitt ríkinu arð upp á 50 milljarða. Það nálgast að vera 3/4 af áætluðu söluvirði af þeim hlut sem ætlað er að selja samkvæmt fjáraukalögum.

Heyrst hefur það sjónarmið að minnka hlut ríkisins í bankanum um 70 milljarða til að draga úr áhættu af bankarekstri, en hvort sem ríkið selur hlut í bankanum eða ekki er ríkissjóður áfram óhjákvæmilega í bakábyrgð af öllum innlánum í bankanum, en þau nema um 600 milljörðum. Til að draga úr áhættunni á að þessi innlán falli á skattgreiðendur í framtíðinni er vissara að ríkið eigi bankann að fullu þar til sett hefur verið (Forseti hringir.) umgjörð um bankarekstur á Íslandi sem tryggir öryggi þeirra.

Eins og ég hef rakið hér er ekki kaupgeta á markaði til að taka við 30% af Landsbankanum á næstu árum. En það er ekki vandamál heldur fremur tækifæri fyrir ríkissjóð til að njóta ríkulegs arðs, setja bankanum stefnu sem dregur úr áhættusækni hans (Forseti hringir.) og skilar heimilum landsins og fyrirtækjum tugmilljarða ávinningi.