145. löggjafarþing — 37. fundur,  19. nóv. 2015.

hugmyndir um einkavæðingu Landsbankans.

[14:01]
Horfa

Heiða Kristín Helgadóttir (Bf):

Frú forseti. Ég eins og aðrir þakka fyrir umræðuna. Mig langar aðeins að kalla betur eftir viðbrögðum frá hæstv. fjármálaráðherra um þau leiðarljós sem hann hefur í þessari vinnu, af því að við erum kannski svona á teórískum nótum hérna, hvaða lærdóm megi draga af síðustu einkavæðingu. Þá er ég ekki að reyna að halda því fram að þar hafi allt verið gert með illum hug, þó að það sé kannski erfitt að segja, því að margt bendir til að þar hafi ýmislegt verið misvel gert, svo ég orði það nú ekki sterkara og þá er ég ekki að vitna í einhver stór sósíalísk rit sem ég hef verið að lesa um málið.

Mig langar aðeins að heyra betur frá hæstv. ráðherra um það vegna þess að mér finnst alveg jafn mikilvægt að orða þær áhyggjur sem mér fannst hv. þm. Páll Valur Björnsson lýsa áðan að væri útbreidd skoðun. Það eru margir sem eru mjög hræddir við allar tilraunir hins opinbera til að einkavæða nokkuð sem það á vegna þess að við höfum farið illa að ráði okkar áður. Mikið kapp hefur verið lagt á að byggja upp traust erlendra aðila á íslenskum mörkuðum eftir hrun og virðist það hafa tekist ágætlega ef marka má þær fjárfestingar sem eru að einhverju leyti að koma til baka inn í landið.

Mig langar að fjármálaráðherra ræði þennan ótta og áhyggjur sem eru víða vegna þess að þær eru mikilvægar og koma til vegna þess að okkur hefur mistekist áður hrapallega þó að okkur greini kannski á um nákvæmlega hvað var að þar og hvernig til tókst. Við hljótum samt að vera sammála um að einkavæðingin síðasta skilaði okkur hruni sex árum síðar, það getur ekki verið annað en einhvers konar mistök.