145. löggjafarþing — 37. fundur,  19. nóv. 2015.

hugmyndir um einkavæðingu Landsbankans.

[14:08]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S):

Frú forseti. Þetta hefur verið á vissan hátt nokkuð fróðleg umræða og ágæt og ég skal sömuleiðis þakka fyrir það að til hennar er efnt. Við eigum að sjálfsögðu eftir að ræða þessi mál heilmikið á næstu missirum. Ég ætla aðeins að koma inn á nokkra hluti sem hafa verið áberandi í umræðunni.

Menn segja: Það er svo mikill arður í bankanum að það er ómögulegt að selja hann. Ég ætla að benda mönnum á það að fyrirtæki sem skila miklum arði seljast á mjög háu verði ef þau eru líkleg til að halda áfram að skila arði, þannig að menn eiga ekki að hafa áhyggjur af því. Svo segja menn líka: Bankinn skilar rosalega miklum arði, við skulum þess vegna ekki selja hann. Svo skulum við breyta honum og gera hann að samfélagsbanka sem er ekki rekinn í hagnaðarskyni, þannig að þá á að eyða arðinum, þeim sama arði sem menn segja að sé ástæðan til að halda bankanum. Þarna tala menn í kross.

Menn segja að það vanti umgjörð. Ég ætla að hvetja menn sem halda því fram að það vanti umgjörð fyrir fjármálastarfsemi á Íslandi til að kynna sér vel allar þær breytingar sem hafa verið gerðar á umhverfi fjármálafyrirtækja frá árinu 2009. Þær hafa meðal annars leitt til þess að Landsbankinn sem nú starfar er með langt yfir 200 milljarða í eigið fé á meðan bankinn sem var seldur á sínum tíma var með um það bil 16 milljarða, innan við 10%, kannski 5% af því sem eigið fé bankans er í dag af því að nýjar kröfur gera áskilnað um miklu sterkari fjárhagslega stöðu. Það á líka við um innstæður, en þær voru nefndar hér. Við erum með nýja löggjöf um það og innstæður njóta forgangs gagnvart eignum fjármálafyrirtækja. Þetta er gerbreytt umhverfi sem við búum við í dag og íslenska leiðin er orðin fyrirmynd um alla Evrópu.

Menn segja að ríkið eigi að fara sér hægt. Ríkið hefur farið sér hægt. Við tókum bankana yfir árið 2009. Það er árið 2015. 2016 er handan við hornið. Við höfum farið okkur mjög hægt. En ég ætla ekki að gera lítið úr því að við stöndum frammi fyrir gríðarlega stóru verkefni, að sjálfsögðu. Við fáum Íslandsbanka í fangið sem er með upp undir 200 milljarða í eigið fé og Landsbankinn eins stór og hann er. Að sjálfsögðu eru þetta gríðarlega stór verkefni og ég er ekki með neinar hugmyndir uppi um það að við getum selt allan Landsbankann og allan Íslandsbanka á næstu tólf mánuðum,(Forseti hringir.) auðvitað ekki. En stefnan verður að vera skýr og mér finnst allt of margir í þessari umræðu hér hafa slegið úr og í og sagt: Ja, ég er nú kannski ekki beint með ríkiseign, en það má skoða einkavæðingu en bara einhvern tíma seinna o.s.frv. Menn verða að fara að gera upp hug sinn í þessu. (Forseti hringir.) Í mínum huga eigum við að greiða niður skuldir. Hverjir 100 milljarðar kosta okkur að lágmarki 5 milljarða í vaxtabyrði og vaxtabyrði er helsti vandi ríkisins í dag.

Þeir sem kalla eftir frekari rannsókn eru þeir sem sátu í síðustu ríkisstjórn eða studdu hana. (SSv: Það var Alþingi.) Menn áttu bara að klára þessa rannsókn. Við hvöttum til þess á síðasta kjörtímabili. (Forseti hringir.) Af hverju kláruðu menn ekki þessa rannsókn á þeim tíma?