145. löggjafarþing — 37. fundur,  19. nóv. 2015.

um fundarstjórn.

[14:17]
Horfa

Steingrímur J. Sigfússon (Vg):

Frú forseti. Við fengum sannarlega eitthvað til að hugsa um í umræðunni áðan sem leiddi í ljós að stjórnarflokkarnir eru bersýnilega í grundvallaratriðum ósammála um veigamikið efnisatriði í fjárlagafrumvarpinu og forsendum fjárlaga fyrir næsta ár, þ.e. fyrirhugaða sölu á 30% hlut í Landsbankanum. Það er nokkuð sem við hljótum að þurfa að taka fyrir hér, ekki seinna en við 2. umr. fjárlaga.

Ég kvaddi mér aðallega hljóðs til að inna hæstv. forseta eftir því hvort meiningin væri að reyna að halda áfram umræðum um 2. dagskrármálið án þess að hæstv. utanríkisráðherra verði við umræðuna. Það tel ég mjög óráðlegt og í raun óviðeigandi fyrir hönd þingsins. Ég held að þær aðstæður séu komnar upp að þingið sé heldur að setja sjálft sig niður ef það ræðir þetta mál dag eftir dag og ekki er orðið við óskum um að hæstv. utanríkisráðherra sé til svara við umræðuna. Við eigum ekki að láta bjóða okkur það þegar jafn gild og veigamikil rök hníga til þess að hæstv. ráðherra sinni þingskyldum sínum og (Forseti hringir.) ráðherraskyldum og svari fyrir sín mál á þingi.