145. löggjafarþing — 37. fundur,  19. nóv. 2015.

um fundarstjórn.

[14:20]
Horfa

Ásta Guðrún Helgadóttir (P):

Virðulegi forseti. Mér finnst mjög athyglisvert að hæstv. utanríkisráðherra sjái sér ekki fært að vera hérna í þessum sal þegar við erum að fara að ræða hið stóra mál ÞSSÍ. Mér finnst í því máli kristallast hið gamla og hið nýja, hvernig verið er að þröngva í gegnum þingið máli sem þingið er efnislega ósammála. Skemmst er frá að segja að ég vitnaði í Valgerði Sverrisdóttur í skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis: „Framkvæmdarvaldið var náttúrulega mjög dóminerandi í þinginu á þeim tíma.“ Á þetta ekki einnig við nú? Er það ekki það sem er að? Erum við að horfa upp á nákvæmlega sama stjórnarfar og átti sér stað fyrir fimmtán árum í aðdraganda hrunsins? Er ekki kominn tími til að við hættum þessu og breytum því hvernig við vinnum? Við viljum að þingið taki umræðu og þá þurfum við að hafa utanríkisráðherra að tala við.