145. löggjafarþing — 37. fundur,  19. nóv. 2015.

um fundarstjórn.

[14:28]
Horfa

Össur Skarphéðinsson (Sf):

Frú forseti. Það mátti sjá og heyra af ræðu hv. þm. Þorsteins Sæmundssonar áðan að honum var verulega brugðið yfir ræðu hæstv. fjármálaráðherra. Að því leytinu til hefur hv. þingmaður að minnsta kosti sómakennd því að hann sér fram á að stjórnarflokkurinn ætlar sér að beygja samþykkt Framsóknarflokksins á landsfundi um samfélagsbanka. Því miður sýnist mér sem hv. þingmaður og formaður þingflokks Framsóknarflokksins hafi ekki alveg jafn öfluga samvisku og réttlætiskennd yfir málstað sínum og síns góða flokks og hv. þingmaður Þorsteinn Sæmundsson. Ég heyrði ekki betur en að hv. þingmaður Ásmundur Einar Daðason væri í seinni ræðu sinni að draga í land frá því sem hann sagði áðan. Þetta er auðvitað mjög makalaust að upplifa hér, hv. þingmaður segir að það sé stuðningur við bæði þessi mál en hvað hefur gerst í dag? Það kemur í ljós að það er bullandi ágreiningur um söluna á Landsbankanum, alveg eins og (Forseti hringir.) þögn Sjálfstæðisflokksins undirstrikar að það er bullandi ágreiningur um það mál sem hér er á dagskrá, ÞSSÍ og tillöguna um að leggja hana niður.