145. löggjafarþing — 37. fundur,  19. nóv. 2015.

alþjóðleg þróunarsamvinna Íslands o.fl.

91. mál
[14:56]
Horfa

Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka þingmanninum ræðuna. Mig langar að fara aðeins yfir nokkur atriði. Við erum sammála um að þetta frumvarp sé óráð og ekki gott. Það sem kemur einmitt fram í minnihlutaálitinu þar sem er vitnað til þess að Ítalir séu að velta því fyrir sér að bakka út úr því fyrirkomulagi sem hér er verið að fara innleiða. Það kemur á bls. 4 að þeir séu að snúa af þeirri braut sem Íslendingar eru leggja til að farin verði. Það segir manni eitt og annað um hvers vegna sé verið að máta sig við eitthvað sem þegar hefur sýnt sig víða að er ekki besti kosturinn.

Hv. þingmaður hefur verið ráðherra og unnið í ráðuneytum og þekkir hvernig þau virka. Utanríkisráðuneytið er svolítið sérstakt ráðuneyti með þessa einu stofnun utan ráðuneytis. Ég hef haft áhyggjur af því eins og margir að þegar svona miklir peningar verða komnir í einn pott í ráðuneytinu verði erfitt að fylgjast með hvernig fénu verður varið, þ.e. gagnsæið verði minna en það er í dag í ljósi þeirra úttekta sem fara reglulega fram á Þróunarsamvinnustofnun. Það eru ekki dæmi um að Ríkisendurskoðun fari í úttekt á ráðuneytunum, a.m.k. ekki svo ég viti.

Telur hún að ráðuneytið sé verr í stakk búið til að standa skil á stjórnunarlegri ábyrgð gagnvart þessum fjármunum og gagnvart þessu starfi með því að færa stofnunina inn í ráðuneytið?