145. löggjafarþing — 37. fundur,  19. nóv. 2015.

alþjóðleg þróunarsamvinna Íslands o.fl.

91. mál
[15:01]
Horfa

Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Umræðan hefur nefnilega verið svolítið eins og málið snúist um tvo aðila sem hafa gefið álit sitt, Sigurbjörgu Sigurgeirsdóttur og Þóri Guðmundsson, en þeir eru auðvitað fleiri. Það kemur fram í áliti minni hlutans að Jónína Einarsdóttir prófessor hefur gagnrýnt þetta. Hún er einn helsti fræðimaður á sviði þróunarfræða og hefur skrifar mjög alvarlega umsögn um þessi mál og hefur miklar áhyggjur af því. Það eru miklu fleiri en bara við, sem hér stöndum og móumst við í þessu máli, sem hafa af því áhyggjur.

Ég hef líka velt því mikið fyrir mér og skil ekki af hverju flokkarnir tveir sem að málinu standa vilja auka ógagnsæi sem af því hlýst. Dæmi sem DAC hefur bent á í því sambandi er skóli Sameinuðu þjóðanna og líka friðargæslan sem ekki eru gerðar reglulegar úttektir á eða neitt annað sem sýnir árangur og annað slíkt. Ég held að við séum að ganga inn í eitthvað sem verður minna á yfirborðinu gagnvart okkur til að fylgjast með þeim miklu fjármunum sem mættu þó alveg að ósekju vera meiri.

Ég velti því fyrir mér hvort hv. þingmaður er mér ekki sammála, af því að þetta á ekki að snúast um hagsmuni okkar, þetta á að snúast um hagsmuni fátækasta fólksins í heiminum, að undirliggjandi sé ásælni í þessa fjármuni, t.d. til þess að taka þátt í óskyldum verkefnum svo sem einhverjum jarðhitaverkefnum eða öðru slíku sem eiga í rauninni ekki að fá þessa tilteknu fjármuni.