145. löggjafarþing — 37. fundur,  19. nóv. 2015.

alþjóðleg þróunarsamvinna Íslands o.fl.

91. mál
[15:26]
Horfa

Sigríður Ingibjörg Ingadóttir (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Ég vil þakka hv. þingmanni fyrir ræðuna og það er tvennt sem mig langar að spyrja út í.

Í fyrsta lagi kemur fram í áliti meiri hlutans að málið hafi áður verið afgreitt út úr nefndinni til 2. umr., þó að hún hafi ekki farið fram, og að umfjöllunin um málið styðjist við umfjöllunina sem þá fór fram.

En það vekur athygli að þrír nýir þingmenn undirrita þetta nefndarálit, sjálfur formaður nefndarinnar og svo tveir framsóknarmenn, sem virðast hafa látið sér nægja að aðrir þingmenn hafi fjallað um málið og sett sig inn í það og séu svo þarna í hlutverki einhvers konar afgreiðslustofnunar.

Þetta er mjög í anda þess hvernig stjórnarmeirihlutinn meðhöndlar þingið þessa dagana þar sem þingið er eiginlega talið aukaatriði sem þurfi þó að stimpla ákveðin mál. Ég vil spyrja þingmanninn hvað honum finnist um þau vinnubrögð.

Hins vegar, af því að hann var að tala um hrossakaup, langar mig að fjalla um þróunarsamvinnunefnd sem er verið að leggja niður í núverandi mynd, en þar eru valdir inn fulltrúar þingflokka og svo er þróunarsamvinnuráð sem er ráðgefandi fyrir nefndina. Rökin fyrir því eru að það séu lítil tengsl á milli nefndarinnar og þingflokka. Ég kannast ekki við þetta, því að við í Samfylkingunni köllum reglulega á fund til okkar fólk sem við tilnefnum í hin aðskiljanlegustu verkefni.

Nú á, til þess að tryggja ríkari aðkomu þingsins, að skipa þróunarsamvinnunefnd með þingmönnum. Í mínum huga er þetta síst til þess fallið að auka gæði nefndarstarfsins og ég spyr þingmanninn í ljósi orða hans um hrossakaup: Hvað er þetta annað en bitlingar til þægra þingmanna?