145. löggjafarþing — 37. fundur,  19. nóv. 2015.

alþjóðleg þróunarsamvinna Íslands o.fl.

91. mál
[15:31]
Horfa

Sigríður Ingibjörg Ingadóttir (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka svarið. Það liggur ljóst fyrir að ríkisstjórn Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar hefur takmarkaðan áhuga á þróunarsamvinnu. Þau hófu kjörtímabilið hér á því að skera niður framlög til þróunarsamvinnu, Til þess að lækka veiðigjöld og lækka skatta á þá sem eru með hærri tekjur var ákveðið að þeir sem væru best til þess fallnir að greiða fyrir það væri fólk sem hefur ekki aðgengi að hreinu vatni, konur sem eru að fæða börn við algjörlega óboðlegar aðstæður, deyja oft af barnsförum og börnin með þeim eða verða fyrir alvarlegum skaða og deyja svo fljótlega eftir fæðingu.

Þetta eru áherslur ríkisstjórnar Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar í Þróunarsamvinnustofnun og nú vilja þau setja þingmenn í sérstakt ráðgjafarhlutverk um þróunarsamvinnu.

Við á þessu þingi fjöllum um þingsályktanir um þróunarsamvinnu og komum þannig að stefnumótuninni. Síðan veljum við það fólk sem hefur sérstaka innsýn í málaflokkinn til þess að starfa í þróunarsamvinnunefnd. Það gerir að minnsta kosti Samfylkingin og ég geri ráð fyrir því að hinir flokkarnir geri það líka.

Svo höfum við samband við okkar fólk sem er í þessari vinnu til að fara yfir stöðuna ef það er eitthvað sem við höfum áhyggjur af. Þannig virka hlutirnir. Ef alþingismenn eru svo illa á sig komnir að þeir geti ekki aflað sér upplýsinga og sett sig inn í hlutina nema að vera sérstaklega skipaðir í einhvern ferðaklúbb þá ætti fólk að fara að leita sér að nýju hlutverki í lífinu.

Ég ítreka það og spyr þingmanninn: Er þetta ekki bara ferðaklúbbur fyrir þæga þingmenn?