145. löggjafarþing — 37. fundur,  19. nóv. 2015.

alþjóðleg þróunarsamvinna Íslands o.fl.

91. mál
[16:04]
Horfa

Margrét Gauja Magnúsdóttir (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á að þakka hv. þingmanni Steinunni Þóru Árnadóttur fyrir frábæra ræðu og góða yfirferð. Hún situr að mér skilst í utanríkismálanefnd fyrir hönd Vinstri grænna og þekkir eflaust vel til. Hér er verið að hamra á því að þetta mál hafi verið afgreitt úr þeirri nefnd og mér er spurn og langar að fá að vita í rauninni hvað það var sem gerðist, hver aðdragandinn var að því og af hverju. Það er fyrsta spurningin.

Önnur spurning sem ég hef áhuga á að spyrja hv. þingmann snýr að því að þegar maður les í fylgiskjölum umsögn um frumvarpið frá fjármála- og efnahagsráðuneytinu þá kemur fram að megintilgangurinn er að stuðla að aukinni skilvirkni og hagkvæmni í stjórnsýslu alþjóðlegrar þróunarsamvinnu Íslands og gera stefnumótun málaflokksins markvissari. Svo þegar maður les málið í gegn þá er náttúrlega ekki verið að bjóða upp á nokkra hagræðingu í rauninni, það er engin breyting í húsnæðismálum, engin breyting í starfsmannamálum og í raun engin breyting nema það á að verða einhvers konar hagræðing og fjármunir sem muni sparast eigi að fara beint til starfsins. Mig langar að spyrja hv. þingmann hvort hún treysti því að svo verði.

Síðan vil ég fá að spyrja stórra spurninga. Ég veit að ég þarf örugglega að koma oftar upp undir ræðum hjá mörgum til þess að reyna að varpa ljósi á málið. En miðað við það sem ég les úr þessu vil ég fá að spyrja: Er þetta kannski bara leið ráðherra til að hafa beint vald yfir því hvar verkefnin eru unnin í þróunarsamvinnu, hvernig þau eru unnin og síðast en ekki síst af hverjum þau verða unnin?